Það voru Keflvíkingar sem komu í heimsókn til Hveragerðis í kvöld í 4. umferð Iceland Express deildar karla. Það tók Keflvíkinga 3 heila leikhluta áður en þeir náðu að brjótast almennilega í gegnum þétta vörn Hamars og endurspeglaðist leikurinn af því. 
Það var Ellert Arnarson sem var allt í öllu á vellinum í fyrsta leikhluta og skoraði hvorki meira né minna en 15 stig fyrir Hamar. Staðan að loknum 1. leikhluta var 29-18 fyrir Hamar. Í 2. leikhluta skoruðu Hamarsmenn 23 stig á móti 17 sem Keflavík skoraði og staðan í hálfleik 52-35.Eftir 3. leikhluta var staðan 75-53 en í 4. leikhluta fór að færast hiti í mannskapinn.
 
Þegar um 6 mínútur eru eftir af leiknum fær Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur, tæknivillu fyrir mótmæli. En undir lokin, í stöðunni 88-85, sauð uppúr. Gunnar Einarsson (Keflavík) brýtur á Andre Dabney (Hamar) og virðist gefa Andre hnéspark sem hann uppsker tæknivillu fyrir en Andre svarar fyrir sig með því að ýta allhressilega frá sér og uppsker einnig tæknivillu. Dómararnir taka þá ákvörðun að þar sem þeir hafi báðir fengið tæknivillu, núllast það út og hvorugur fær vítin sem ættu að fylgja villunum. Í staðin fer Andre á vítapunktinn hinumegin (fyrir villuna sem Gunnar uppskar með því að brjóta á honum) og skorar úr báðum vítunum og innsiglar 5 stiga sigur Hamarmanna 90-85.
 
Atkvæðamestir í liði Hamars voru Andre Dabney með 28 stig og Ellert Arnarson með 27.
 
Hjá Keflavík var það Hörður Axel sem var langatkvæðamestur með 34 stig en næst á eftir honum var það Sigurður Gunnar Þorsteinsson sem skoraði 14 stig.
 
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hamars, hafði þetta að segja eftir leikinn:
,,Við erum að spila virkilega vel varnarlega séð í þrjá leikhluta og fáum á okkur aðeins 53 stig sem er virkilega gott. Hinsvegar erum við að fá á okkur 22 stig í seinasta leikhlutanum sem setur okkur soldið í panikk, skiljanlega þar sem að við erum búnir að vinna 2 leiki og tapa 2 og þessir 2 tapleikir höfum við misst í lokin og algjör óþarfi að gera það líka hér í dag."
 
Ágúst vildi lítið segja um slagsmálin í lokin en sagði: "Þetta setur leiðinlegan svip á leikinn en ég er bara sáttur með að þetta hafi núllast út þar sem að mér finnst persónulega að báðir aðilar hafi verðskuldað tæknivillu fyrir það sem þeir gerðu".
 
Heildarskor:
 
Hamar: Andre Dabney 28, Ellert Arnarson 27/5 fráköst/7 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 12/5 fráköst, Ragnar Á. Nathanaelsson 8/8 fráköst/3 varin skot, Svavar Páll Pálsson 7/8 fráköst, Nerijus Taraskus 6, Kjartan Kárason 2/5 fráköst, Bjarni Rúnar Lárusson 0, Emil F. Þorvaldsson 0, Mikael Rúnar Kristjánsson 0, Snorri Þorvaldsson 0/4 fráköst, Stefán Halldórsson 0.
 
Keflavík: Hörður Axel Vilhjálmsson 34, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 14/6 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 11, Elentínus Margeirsson 9, Gunnar Einarsson 8, Jón Nordal Hafsteinsson 6/4 fráköst, Gunnar H. Stefánsson 3, Ragnar Óskarsson 0, Sigmar Logi Björnsson 0, Sigurður Vignir Guðmundsson 0, Andri Þór Skúlason 0, Kristján Tómasson 0.
 
Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Davíð Tómas Tómasson
 
Ljósmynd/ Sævar Logi Ólafsson: Ellert Arnarson átti sterkan leik með Hamri í kvöld.
 
Pistill: Jakob F. Hansen