Haukar mættu efsta liði IE-deildar karla í kvöld þegar Grindavík mættu þeim á Ásvöllum. Grindvíkingar voru sjóðandi heitir allan leikinn á meðan lítið gekk upp hjá heimamönnum og að endingu fóru gestirnir með sigur af hólmi 84-100. Grindvíkingar eru á mikilli siglingu og hafa unnið alla leiki sína það sem af er Íslandsmótsins.
Leikurinn var jafn til að byrja með og skiptust liðin á körfum . Vörn Hauka var þétt á lykilmenn Grindvíkinga eins og Pál Axel Vilbergsson sem yfirleitt er liðum erfiður ljár í þúfu. Fyrir vikið opnaði það á aðra leikmenn sem náðu að nýta sín skot vel. Ryan Pettinella var drjúgur undir körfu Grindvíkinga og barðist eins og ljón við Gerald Robinson sem byrjað hefur tímabilið vel í fráköstum. Grindavík leiddi með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta, 24-28.
 
Grindavík var að spila feyki vel og virtist ekki skipta máli hver það var eða hvernig hann skaut fyrir utan þriggja stiga línuna allt gjörsamlega fór ofaní. Á sama tíma voru Haukar ekki að finna taktinn sem þeir hafa verið í í fyrstu þremur leikjum tímabilsins og virtist almennt vanta stemningu hjá Haukamönnum á Ásvöllum í kvöld. Leikhlutinn var jafn þrátt fyrir hittni gestanna og leiddu Grindvíkingar með sjö stigum í hálfleik, 39-46.
 
Grindavík vann alla leikhluta leiksins en þó svo að sigrarnir hafi aldrei verið afgerandi í leikhlutunum þá safnaðist munurinn upp og skóp þennan 16 stiga sigur þeirra. Þriðji leikhluti flaut líkt og þeir fyrri og sama má segja um fjórða leikhluta. Haukar voru einhvern veginn aldrei almennilega inn í leiknum og því sigur Grindvíkinga öruggur og sanngjarn.
 
Eins og fyrr segir þá virtist allt gjörsamlega fara ofaní hjá gestunum og lýsir það sér kannski best að Ármann Vilbergsson kom kaldur af bekknum og setti niður þriggja stiga skot rétt inn fyrir miðju á lokaflauti leiksins.
 
Stigahæstur í liði Grindavíkur voru Andre Smith og Páll Axel Vilbergsson með 18 stig hvor en Páll skoraði ekki eina þriggja stiga körfu í leiknum sem er afar sjaldgæft. Björn Steinar Brynjólfsson var með 15 stig en hann var sjóð heitur fyrir utan þriggja stiga línuna og skoraði fjórar slíkar úr fimm tilraunum.
 
Hjá Haukum var Semaj Inge allt í öllu með 40 stig og Gerald Robinson gerði 20 stig og var með 17 fráköst.