Stjarnan og Njarðvík mættust í Ásgarði í fjórðu umferð Iceland Express deildar karla í kvöld. Allt stefndi í spennandi lokasprett en heimamenn reyndust sterkari á lokasprettinum og eru nú í 3. sæti deildarinnar með 6 stig eftir 4 umferðir. Njarðvíkingar eru í 8. sæti deildarinnar með 2 sigra og 2 tapleiki. Njarðvíkingar hafa varist ágætlega í upphafi leiktíðarinnar en í kvöld urðu Garðbæingar fyrstir til að skora 90 stig eða meira á græna. 
Það var greinilegt í byrjun leiks að gestirnir úr Njarðvík kunna vel við að koma boltanum á nýja manninn í liðinu, Christopher Smith, en hann skoraði 10 af fyrstu 15 stigum Njarðvíkinga þar til hann fór útaf eftir rúmlega 8 mínútna leik. Þetta kom hins vegar niður á flæði sóknarleiks þeirra þar sem aðrir menn, að Guðmundi Jónssyni frátöldum, höfðu ekki komist á blað þessar fyrstu 8 mínútur. Stjörnumenn spiluðu vel á báðum enda vallarins í þessum fyrsta fjórðungi og var nokkuð gott jafnvægi í leik þeirra. Jovan og Justin leiddu stigaskor þeirra með sitthvor 9 og 8 stigin og endar fjórðungurinn með 8 stiga forystu heimamanna. 27 – 19.
 
Hlutirnir gerðust hratt í byrjun annars fjórðungs og skiptust liðin á að skora. Rúnar Ingi fékk snemma sínu þriðju villu og Smith var enn fyrirferðarmikill í sókn Njarðvíkinga og var hann kominn með 15 stig og 5 fráköst eftir 15 mínútur spilaðar. Stjarnan var farin að hitna fyrir utan og setti Birkir Guðlaugsson 2 þrista með skömmu millibili og Marvin bætti öðrum við. Þetta var nóg til þess að Sigurður Ingimundarsson tók leikhlé til þess að fara yfir málin með sínum mönnum. Skömmu eftir leikhlé fær Friðrik Stefánsson á sig tvær villur eftir baráttu við Fannar Helgason. Þegar tæp mínúta er eftir af fyrri hálfleik er Stjarnan komin með 14 stiga forskot, Egill Jónasson slær boltann af hringnum eftir gott gegnumbrot Daníels Guðmundssonar, kemur sér í sóknina og klárar hana með fallegu sniðskoti. Coast to Coast hjá stóra manninum. Stjarnan tapar svo boltanum þegar 3 sekúndur eru eftir og ungur maður að nafni Óli Ragnar Alexandersson kemst með hann nálægt miðju þar sem hann kastar honum í átt að körfunni, undir pressu frá Justin, og setur fallegan buzzer. Hálfleikstölur 52 – 42.
 
Mikið var skorað í byrjun seinni hálfleiks og enn bera Smith og Guðmundur sóknarleik Njarðvíkinga uppi. Þegar spilaðar hafa verið 24 mínútur eru þeir Smith með 22 stig og Guðmundur 15. Aðrir Njarðvíkingar eru með 4 stig eða minna. Nú brast á með mikilli skotsýningu Stjörnunnar, en þeir skoruðu 17 stig á 4 mínútum og þar af var Fannar Helgason með 2 þriggja stiga körfur og átti hann enn eftir að bæta einni við í fjórðungnum. Loks stigu aðrir Njarðvíkingar upp og komu Lárus Jónsson og Kristján Sigurðsson í veg fyrir það að Stjarnan stingi af á þessum kafla. Staðan eftir 3. fjórðung var 78 – 65 Stjörnunni í vil.
 
Í upphafi 4. leikhluta byrjuðu Njarðvíkingar í svæðisvörn. Sú vörn kom ekki í veg fyrir að Stjarnan fengi ekki góð skot en þau fóru þó ekki niður. Eftir 6 mínútur hafði Stjarnan ekki skorað stig í fjórðungnum og Njarðvíkingar komu muninum niður í 5 stig, 78 – 73. Jovan kom boltanum loks niður fyrir hvítklædda en Smith skorar jafnharðan á hinum endanum, hans 29. stig. Nær komust Njarðvíkingar þó ekki, góður 8 – 0 leikkafli Stjörnunnar í lokin tryggði þeim sigur þessum leik, 91 – 81.
 
Stjarnan: Justin Shouse 23/7 fráköst/6 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 19/5 fráköst, Fannar Freyr Helgason 16/7 fráköst, Marvin Valdimarsson 15/8 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 9, Birkir Guðlaugsson 6, Ólafur Aron Ingvason 2, Kjartan Atli Kjartansson 1, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0, Birgir Björn Pétursson 0, Guðjón Lárusson 0/4 fráköst, Dagur Kár Jónsson 0.
 
Njarðvík: Christopher Smith 29/8 fráköst, Guðmundur Jónsson 15, Kristján Rúnar Sigurðsson 9, Hjörtur Hrafn Einarsson 7/6 fráköst, Páll Kristinsson 5/4 fráköst, Lárus Jónsson 5, Rúnar Ingi Erlingsson 4, Egill Jónasson 4/4 fráköst, Óli Ragnar Alexandersson 3, Friðrik E. Stefánsson 0/5 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 2 0, Ágúst Hilmar Dearborn 0.
 
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jóhann Gunnar Guðmundsson
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Justin Shouse gerir hér 2 af 23 stigum sínum í leiknum.
 
Umfjöllun: BSB