Stjörnumenn voru varla lentir á Ísafirði þegar þeir fóru á flug aftur í upphafi leiks gegn gestgjöfunum í KFÍ.  Þeir voru á undan í öllum aðgerðum og virtust mun ákveðnari.  Enda fór það svo að þeir lögðu grunninn að sigri í fyrsta leikhluta með 17:24 stigum, en það fer reyndar að verða margtuggin saga hvað KFÍ varðar.
 
Leikmenn Stjörnunnar fóru sínu fram að vild á báðum enda vallarins og þegar staðan var orðin 21:37, um miðjan annan leikhluta, virtist ekkert ætla að koma í veg fyrir auðveldan sigur þeirra.  Þá girtu KFÍ menn sig í brók og löguðu stöðuna í 35:40 fyrir hálfleik.  Áhorfendur voru nokkuð bjartsýnir enda sjaldan sem þetta KFÍ lið hefur verið minna undir eftir tvo leikhluta. 


Í upphafi þriðja leikhluta minnkuðu þeir muninn í 37:40 með góðri körfu Darcos, en lengra náði það ekki í bili.  Stjarnan skipti um gír og Jovan skoraði dýrmæta körfu úr sniðskoti og svo stuttu síðar setti hann niður tvö vítaskot, sem kom stöðunni aftur í 7 stiga mun.  Þarna urðu viss kaflaskil og Stjarnan jók aftur forskot sitt og sást þá hversu dýrmæt leikreynsla leikmanna Stjörnunnar er, getur riðið baggamuninn í leikjum sem ella yrðu mun jafnari.  Rétt fyrir lok leikhlutans fékk þó lið KFÍ gullið tækifæri til þess að snúa leiknum á ný.  Þá var dæmd tæknivilla í Justin Shouse.  Craig Schoen skoraði úr 4 vítaskotum í röð! Þarna var staðan orðin 50:57 og KFÍ fékk boltann en tókst ekki að fullnýta þetta tækifæri.


Leikurinn telst þó seint til sögulegra viðureigna, nema það nálgist einhver met í IE deildinni að lið tapi 20 boltum á 40 mínutum?  Gestgjafarnir voru að minnsta kosti gjafmildari á boltann til andstæðinga sinna en liðsfélaga (6 stoðsendingar skráðar!).  Auðvitað er það svo að ekkert lið spilar betur en andstæðingurinn leyfir og Teitur Örlygsson var í ekilssætinu í kvöld.  Leikurinn gat því ekki endað öðru vísi en með sigri Stjörnunnar, sem leiddi frá upphafi til loka.  Heimamenn tóku nokkurn fjörkipp í lokin enda vel hvattir af áhorfendum og ekki hvað síst af þjálfurunum, en því miður verður að segjast eins og er (til þess að forðast allar klisjur) að það var of lítið og of seint.  Stjarnan landaði verðskulduðum sigri á útivelli sem margir hafa talið hingað til erfiðan heim að sækja.


Hjá Stjörnunni voru þeir Justin, Marvin, Jovan og Kjartan fyrirferðarmestir, en í raun spiluðu allir sem tóku þátt vel fyrir liðið og þar lá munurinn á þessum tveimur liðum í kvöld.


Þeir félagar Craig og Nebojsa drógu vagninn fyrir KFÍ en hafa þó báðir verið meira sannfærandi í fyrri leikjum.  Séð af afhorfendapöllunum virtist sem einstaklingsframtakið væri einkunnarorð leikmanna KFÍ í þessum leik og eiga þeir að geta gert mun betur, ef þeir muna eftir því að spila sem lið.


Að leik loknum var BJ Armstrong, þjálfari KFÍ ekkert sérstaklega kátur en lofaði því að leiðin gæti aðeins legið upp á við í leik liðsins og þessi leikur yrði nýttur í reynslubankann. 


Heildarskor:


KFÍ:
 Craig Schoen 17/4 fráköst, Nebojsa Knezevic 15/6 fráköst, Darco Milosevic 14/4 fráköst, Carl Josey 10/6 fráköst, Ari Gylfason 8, Hugh Barnett 6/6 fráköst, Pance Ilievski 6, Daði Berg Grétarsson 2, Hjalti Már Magnússon 0 (lék ekki), Sigmundur R. Helgason 0 (lék ekki).


Stjarnan:
 Justin Shouse 23/7 fráköst, Marvin Valdimarsson 19/6 fráköst, Jovan Zdravevski 18/6 fráköst, Kjartan A. Kjartansson 9, Fannar F. Helgason 8/5 fráköst, Ólafur Aron Ingvason 4, Guðjón Lárusson 2, Daníel G. Guðmundsson 2, Birgir Björn Pétursson 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0 (lék ekki).


Dómarar:
 Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson sem dæmdu vel í kvöld.


Umfjöllun og Ljósmynd: Helgi Sigmundsson