Lið FSu lætur allar spár og visku spekinga sem vind um eyru þjóta og byrjar tímabilið í 1. deild með látum, eftir að hafa hríðfallið úr Iceland-Express deildinni sl. vor. Breiðablik, sem spáð er sigri í 1. deildinni, var skotið niður á jörðina í Iðu á Selfossi í kvöld af bráðfrísku liði FSu.
Niðurstaðan varð 15 stiga öruggur sigur heimaliðsins í skemmtilegum leik, lokatölur 85-70.
FSu byrjaði leikinn af offorsi og sallaði niður þristum og hraðaupphlaupum til skiptis. Blikar vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið allan fyrsta leikhlutann, enda fór allt niður hjá leikmönnum FSu, sem skoruðu 32 stig á fyrstu 10 mínútunum. Það vó þungt á vogarskálunum, gegn aðeins 17 stigum Blikanna. Sjá mátti á Sævaldi að hann var ekki sáttur með sína menn, tókst honum enda að berja í brestina og allt annað upplit var á hans liði í 2. leikhluta. Blikar voru mun ákveðnari í varnarleik sínum, sáu enda að við svo búið mátti ekki standa. Þeir léku stíft og settu með því heimastráka út af laginu, þeir týndu alveg hittninni, en gáfust þó ekki upp. Breiðablik stjórnaði öllum þessum leikhluta, með Steinar Arason í broddi fylkingar sóknarlega, og vann þessa rimmu með 10 stiga mun, 13-23 og staðan í hálfleik því vænlegri fyrir Kópavogsliðið en á horfðist um hríð, eða 45-40 og allt útlit fyrir spennandi leik.
 
En þó Breiðablik sé samkvæmt Snorra-Eddu hinn sjöundi himinn, og þar búi góðir menn og réttlátir, þá kom það ekki að notum í Iðu eftir te. FSu náði aftur áttum og þessir guttar, sem eiginlega allir leikmenn liðsins eru, héldu aðdáunarverðri ró og spiluðu glimrandi bolta. Aukin harka í leiknum, sem hafði sett þá aðeins út af laginu í 2. hluta, hafði nú álíka áhrif og skvett væri vatni á gæsir. Leikurinn var í jafnvægi, FSu vann 3. leikhluta 18-16 og staðan fyrir lokaorrustuna því 63-56.
 
Nú var heimaliðið komið með blóðbragð í munninn og lét sér ekki sigurinn úr greipum ganga. FSu liðið var frískara og virtist í betra formi. Hittni Blika lá nánast niðri um hríð á meðan heimamenn héldu sínu striki. Mikil barátta var í leikmönnum beggja liða, og eiga þeir allir hrós skilið fyrir það. En eftir því sem sekúndurnar tifuðu, og heimaliðið neitaði lengur að leggja upp laupana gegn ágengri vörn og pressutilburðum, varð ljóst hvert stefndi, og aftur dró í sundur síðustu mínúturnar. FSu vann síðasta bardagann 22-14, og stríðið 85-70, eins og fyrr getur.
Hjá Breiðablik fór fremstur Nick Brady með 20 stig og 12 fráköst. Steinar Arason var heitur í fyrri hálfleik en kólnaði heldur er líða fór á. Steinar setti 13 stig. Brýnin Þorsteinn Gunnlaugsson (7 stig, 12 fráköst) og Aðalsteinn Pálsson (9 stig) voru öflugir, sérstaklega varnarlega og létu vel finna fyrir sér. Atli Örn Gunnarsson (8 stig, 8 fráköst) var síkvikur og baráttuglaður en þurfti að yfirgefa völlinn með 5 villur. Hinn kornungi og eitursnöggi leikstjórnandi Blika, Arnar Pétursson, sýndi stórskemmtilega takta og þar vantar ekki keppnisskapið.
 
Fremstir meðal jafningja hjá FSu voru Richard Field (24 stig, 19 fráköst) og Valur Orri Valsson (24 stig, 3 fráköst, 6 stoðsendingar). Valur hitti úr ótrúlegum færum og stjórnaði leik heimamanna af festu. Guðmundur Auðunn Gunnarsson setti 14 stig, flest í mikilli skotsýningu í upphafi leiks. Orri Jónsson (10 stig, 5 fráköst) átti mjög góðan leik, sérstaklega varnarlega, og lét helstu skyttu Blikanna, Steinar Arason hafa mikið fyrir hlutunum í seinni hálfleik. Einnig ber að nefna Svavar Stefánsson sem spilaði góða vörn og sýndi efnilega takta sóknarlega. Þar er á ferðinni ungur og hávaxinn strákur sem á eftir að draga að sér athygli í framtíðinni. Ljóst er að Valur Ingimundarson er strax kominn á rétta sporið í starfi sínu sem þjálfari og stjórnandi körfuboltaakademíunnar á Selfossi.
 
Athygli vekur, þegar tölfræðiskýrsla leiksins er skoðuð að FSu-liðið er með betri skotnýtingu úr þriggja stiga skotum (48%) heldur en tveggja stiga skotum (47%). Til viðmiðunar eru tölurnar hjá Blikum 30% í þristum og 40% í tveggja stiga skotum. Þó Blikar hafi tekið fleiri fráköst en lið FSu vegur það skammt gegn muninum á hittni liðanna.
 
Ljósmynd/ Úr safni: Valur Orri Valsson og Richard Field í góðum gír.
 
Umfjöllun: Gylfi Þorkelsson