Keppni í ACB deildinni, spænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik, hófst í gær með einum leik þegar Asefa Students lá á heimavelli gegn Real Madrid 79-84. Einn leikur er á morgun en fyrstu umferðinni lýkur á sunnudag og þá eiga Jón Arnór Stefánsson og félagar í CB Granada einmitt sinn fyrsta deildarleik er liðið mætir Valencia á útivelli. Karfan.is ræddi stuttlega við Jón sem kvaðst ánægður með að undirbúningstímabilinu væri nú lokið.
,,Ég er mjög stemmdur fyrir fyrsta leik og mjög ánægður með að undirbúningstímabilið sé búið, við vorum lélegir í flestum okkar leikjum! Það er oft erfitt að ná fullri einbeitingu í æfingaleikjum en verðum að bæta okkar leik verulega í þessum mánuði,“ sagði Jón og er nokkuð afdráttarlaus í sínu máli.
 
,,Við erum með nýtt lið sem er eins og er klárlega ekki jafn gott og í fyrra. Það er nokkuð um meiðsli þannig að þetta á eftir að taka tíma. Fyrstu leikir verða mjög erfiðir og helstu markmið því að vinna sem flesta leiki á heimavelli, það er dýrmætt að vernda hann,“ sagði Jón og því ekki tímabært að setja fram endanleg markmið að sögn Jóns.
 
,,Þegar liðið er orðið fullmannað og allir heilir þá er hægt að sjá hvaða markmið við getum sett okkur.“
 
Fyrsta umferðin á Spáni:
Asefa Students 79-84 Real Madrid
Cajasol – DKV Joventut
Mencora Basketball – Valladolid
Zaragoza – Unicaja
Barcelona – Gran Canaria
Fuenlabrada – Lagun Aro GBC
Caja Laboral – Alicante
Valencia – CB Granada
Manresa – Bilbao Basket