,,Við byrjuðum bara að spila almennilega vörn í seinni hálfleik,“ sagði Finnur Magnússon leikmaður KR í samtali við Karfan.is eftir sigur þeirra röndóttu á Fjölni í Iceland Express deild karla í kvöld. Finnur fór mikinn fyrir KR með 19 stig og 10 fráköst.
,,Við vorum alltof kærulausir til að byrja með, stigum ekki nægilega vel upp úr skrínum og þeir voru bara að komast allt of mikið inn í teiginn. Um leið og við byrjum að spila vörn þá gengur þetta eins og sýndi sig í kvöld,“ sagði Finnur og aðspurður um hvort KR hafi nokkuð ætlað að falla á svæðisvarnarprófinu annan leikinn í röð svaraði Finnur:
 
,,Það er greinilegt að allir halda að þeir geti spilað svæðisvörn á móti okkur en við erum með byssur eins og Ólaf, Brynjar og Pavel getur líka skotið þessu svo við eigum ekkert að falla á svona prófum eins og í Hveragerði, það var bara klúður,“ sagði Finnur en hver er hans hugur til upphafs KR á leiktíðinni?
 
,,Byrjunin er fín fyrir utan Hamarsleikinn, við erum að klára leikina þó þeir séu ekki alltaf fallegir eins og á móti Haukum en við ætlum ekki að toppa í október heldur undir lokin í sjálfri úrslitakeppninni. Góð lið þurfa að klára ljótu leikina líka.“