Fyrirliði Garðbæinga, Fannar Freyr Helgason, var skiljanlega ekki sáttur við hlutskipti sitt í kvöld. Stjörnumenn gerðu vel að vinna niður forskot KR og koma leiknum í framlengingu en Stjarnan var vart skugginn af sjálfum sér síðustu 5 mínútur leiksins og því höfðu KR-ingar öruggan 108-90 sigur í leiknum eftir að hafa skorað 22 stig gegn 4 frá Stjörnunni í framlengingunni!
,,Við vorum bara sprungnir og það var klúður að byrja þennan leik ekki eins og menn. Öll orkan fer í að vinna upp muninn og fæ ekki betur séð en að orkan hafi bara verið búin hérna í lokin. Þetta verður oft mikið hark í svona framlengingum og lítið um sóknarleik, við klúðruðum þessum leik ekki bara í framlengingunni því við misstum þá of langt frá okkur fyrr í leiknum,“ sagði Fannar en hvað þýðir þessi leikur fyrir Stjörnuna?
 
,,Ekki neitt! KR er spáð Íslandsmeistaratitlinum, með sterka leikmenn í öllum stöðum og við erum að tapa í framlengingu á útivelli þar sem við vinnum upp 20 stiga mun. Ég hef engar áhyggjur og að vera fúll yfir að tapa hér í framlengingu sýnir metnaðinn í okkur. Við ætlum okkur að gera góða hluti í vetur, leikur aftur á sunnudag og höfum bara ekki tíma til að pæla meira í þessum leik,“ sagði Fannar sem gerði 17 stig og tók 9 fráköst í leiknum.
 
Stjarnan leikur svo gegn Fjölni í Garðabæ næstkomandi sunnudag kl. 19:15