Augu margra voru á Sant Jori höllinni í Barcelona í gærkvöldi þegar evrópumeistarar Barcelona tóku á móti NBA-meisturunum í L.A. Lakers. Mikið hefur verið skrifað og rætt um þennan leik enda afar áhugaverð viðureign. Í leikslok er ljóst að enn fleiri pistlar verða skrifaðir enda fór Barcelona með sigur af hólmi í hörkuleik 92-88.
Pau Gasol var kominn heim til Barcelona en hann er fæddur og uppalinn hjá katalónska liðinu. Hann er í guðatölu á Spáni og 25 stigin sem hann setti á sitt gamla félag hefur engin áhrif á það. Yfir 16.000 áhorfendur fengu mikið fyrir aurinn en leikurinn var fullur af tilþrifum og mikilli spennu alveg fram í lokin.
 
Kobe Bryant gat minnkað muninn með þrist þegar skammt var til leiksloka en hann geigaði og Barcelona vann NBA-meistaranna.
 
Þetta er í fyrsta skipti síðan árið 2005 sem að NBA-lið tapar æfingaleik fyrir liði sem er ekki NBA-lið.
 
Stigahæstur hjá Barcelona var Pete Mikael með 26 stig og Juan Carlos Navarro setti 25 stig.
 
Hjá Lakers var Pau Gasol stigahæstur með 25 stig og Kobe Bryant var næstur með 15 stig.
 
Ricky Rubio sem Minnesota valdi með fimmta valréttinum í nýliðavalinu í fyrra náði ekki að komast á blað og öll skot hans geiguðu. Hvort þetta var sviðsskrekkur að keppa gegn einu besta NBA-liðinu skal ósagt látið en ljóst er að forráðamenn Minnesota fá margt til að hugsa um eftir leik kvöldsins.
 
Ljósmynd/ Pete Mikael og Ron Artest í leiknum í gær.
 
emil@karfan.is