Toppslagur Iceland Express deildar kvenna var viðureign Hauka og KR í gærkvöldi en þar mættust einu lið deildarinnar sem ekki hafa á að skipa erlendum leikmönnum. Skömmu fyrir Íslandsmótið leystu Haukar sinn Bandaríkjamann undan samningi. Henning Henningsson þjálfari Hauka segir að sínir leikmenn vilji fá að spreyta sig útlendingalausar til að byrja með.
,,Ég veit ekki hversu lengi við munum spila án erlends leikmanns, ég og stelpurnar erum búin að ræða þetta mál mál mjög vel og það er mikill hugur í þeim að fá að spreyta sig útlendingalausar til að byrja með,“ sagði Henning við Karfan.is.
 
,, Ég ætla að sýna mínum leikmönnum mínum það traust sem þær óska eftir og eiga skilið og tel liðið alveg nógu sterkt til að pluma sig gegn alþjóðavæddum herjum annarra liða,“ sagði Henning í léttum tón sem reyndar styður heilshugar notkun erlendra leikmanna til að auka gæði kvennakörfunnar eins og hann sagði sjálfur.
 
,,Við munum bara taka hvern leik fyrir sig og gott að vita til þess að við getum hvenær sem er ákveðið að kippa inn krúttlegum kana eða kröftugum Bosmanni. Sem sagt allt opið, stelpurnar mínar hafa keflið í sínum höndum í augnablikinu eftir góða frammistöðu gærdagsins," sagði Henning en þá lögðu Haukar Íslandsmeistara KR 65-64 að Ásvöllum í fyrstu umferð úrvalsdeildar kvenna.
 
Ljósmynd/ Tomasz KolodziejskiHenning og Haukakonur verða án erlends leikmanns í næstu leikjum en þó er ekki loku fyrir það skotið að erlendur leikmaður verði ráðinn til liðsins.