Það var alger einstefna í Keflvíkinni í kvöld þegar heimastúlkur tóku á móti Haukum í Iceland Express deild kvenna. Keflavíkur stúlkur sigruðu leikinn nokkuð auðveldlega með 30 stiga mun 79:49.
 Haukastúlkur áttu í mesta basli með hreinlega að koma boltanum í körfuna í fyrsta fjórðung og náðu aðeins að koma 8 stigum á töfluna þegar fyrstu 10 mínútur  leiksins voru afstaðnar. Keflavík var að spila gríðarlega "agresíva" vörn sem gestirnir áttu í mesta basli með að leysa. Pressa Keflavíkur skilað þeim svo auðveldum stigum. 
 
Í hálfleik leiddu heimastúlkur með 17 stigum og í raun ekkert sem benti til þess að þær rauðklæddu myndu ná nokkru úr þessum leik. Í þriðja leikhluta sýndu þær hinsvegar töluvert betri leik og náðu að halda ágætlega í við Keflavík en þó var Keflavíkurliðið alltaf á skrefinu á undan.  Heimastúlkur kláruðu svo dæmið nokkuð sannfærandi og fengu ungu stúlkurnar að spreyta sig hjá þeim á loka metrunum. 
 
Svo sannarlega gerbreytt Keflavíkurlið frá síðustu leiktíð. "Kanalotteríið" féll þeim svo sannarlega í hag í þetta skiptið. Ekki nóg með að Jackie Adamshick sé að skila frábærum tölum heldur drífur hún liðið allt áfram með sér og virkar sem vítamínssprauta á baráttuandan í liðinu. 
 
Í Haukaliðinu býr þó miklu meira en þessi úrslit gefa til kynna. Von er á erlendum leikmanni í þeirra raðir, bakverði sem á líkast til eftir að gjörbreyta öllu þar. Langar leiðir sást að það hreinlega vantar sjálfstraust í mannskapinn og vissulega getur réttur leikmaður breytt því á svipstundu fyrir Hafnarfjarðarstúlkurnar. 
 
Tölfræði: 
Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir 18/8 fráköst/5 stoðsendingar, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 15/5 stolnir, Pálína Gunnlaugsdóttir 14/5 fráköst/3 varin skot, Jacquline  Adamshick 14/10 fráköst/5 stolnir/3 varin skot, Rannveig Randversdóttir 8, Hrund Jóhannsdóttir 6/4 fráköst, Sigrún Albertsdóttir 2, Lovísa Falsdóttir 2, Aníta Eva Viðarsdóttir 0, Ingibjörg Jakobsdóttir 0/4 fráköst, Árný Sif Gestsdóttir 0, Eva Rós Guðmundsdóttir 0. 
Haukar: Íris Sverrisdóttir 11, Ragna Margrét Brynjarsdóttir 8/8 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 6, Gunnhildur Gunnarsdóttir 5, Guðrún Ósk Ámundardóttir 5, Bryndís Hanna Hreinsdóttir 5, Þórunn Bjarnadóttir 4, Sara Pálmadóttir 2, María Lind Sigurðardóttir 2, Helga Jónasdóttir 1/10 fráköst, Telma Björk Fjalarsdóttir 0/5 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 0. 
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Davíð Kr. Hreiðarsson