,,Við pressuðum ÍR í lokin því við vissum að þeir yrðu þreyttir og við erum allir í toppformi,“ sagði Daði Berg Grétarsson leikmaður KFÍ í samtali við Karfan.is í kvöld eftir magnaðan 107-97 sigur á ÍR í framlengdum leik á Ísafirði. Sigurinn var annar deildarsigur nýliða KFÍ í þremur umferðum. 
,,Við vorum eins og aular í byrjun leiks og það sýndi sig bara að Nemanja Sovic má ekki fá boltann á póstinum, hann skorar bara og er rosalega mjúkur leikmaður,“ sagði Daði og veit vel hvað KFÍ hefur í hendi á heimavelli.
 
,,Fyrirfram var vitað að við yrðum sterkir heima, það er mikið af fólki á leikjunum okkar og góð stemmning. Nú eigum við Snæfell í næsta leik á útivelli og við verðum að vinna úti líka ef við ætlum að geta eitthvað í þessari deild. Þeir koma eflaust brjálaðir í leikinn og það gerum við líka,“ sagði Daði en hvernig líst honum á nýja leikmanninn, Englendinginn Hugh Barnett?
 
,,Hann er óargardýr þessi gaur og á eftir að hjálpa okkur í teignum, við söknum auðvitað Edin en hann ætti að vera kominn aftur í gang eftir 4-6 vikur. Edin á eftir að koma sterkur til baka, hann er bara þannig karakter,“ sagði Dagði sáttur með sigurinn í kvöld en hann skoraði 8 stig fyrir KFÍ í leiknum og gaf 2 stoðsendingar.
 
Ljósmynd/ Daði í leiknum gegn Tindastól í 1. umferð úrvalsdeildarinnar