Fram kemur á heimasíðu Hauka að stjórn körfuknattleiksdeildarinnar hefur ákveðið að leysa Alyshu Harvin undan samning við félagið og heldur hún til síns heima í dag. Það er því ljóst að hún mun ekki leika með liðinu sem mætir KR annað kvöld.
Henning Henningsson, þjálfari Hauka, sagði í samtali við Karfan.is að þetta hafi verið ákvörðun stjórnar í samvinnu við hann sjálfan að leysa hana undan samning og er ekki stefnan að finna eftirmann hennar strax.
 
„Stelpurnar fá nú að spreyta sig án þess að stóla á annan en sjálfan sig og er það bara af hinu besta“ sagði Henning. „Ég hef ekki tekið neinar ákvarðanir varðandi annan erlendan leikmann og hef ekki einu sinni skoðað það“ bætti hann við.
 
Alysha er ekki sú eina sem yfirgefur herbúðir Hauka en Heiðrún Hauksdóttir ákvað að róa á önnur mið eftir tveggja ára veru hjá Haukum. Samkvæmt síðustu upplýsingum hefur Heiðrún ekki fundið sér annað lið en ekki náðist í hana til að staðfesta það.