Keflvíkingar gerðu góða ferð í DHL-Höllina í dag þegar þeir lögðu Íslandsmeistara KR 74-87 í annarri umferð Iceland Express deildar kvenna. Birna Valgarðsdóttir og Jaqueline Adamshick fóru mikinn í liði Keflavíkur en athygli vakti að aðeins fimm leikmenn Keflavíkur komust á blað í leiknum.
 
Keflvíkingar voru betri í upphafi leiks og leiddu 18-25 eftir fyrsta leikhluta þar sem Hildur Sigurðardóttir setti flautuþrist fyrir KR í lok leikhlutans. Íslandsmeistararnir bitu frá sér í öðrum leikhluta og náðu að minnka muninn í 29-30 eftir villu og körfu góða hjá Margréti Köru Sturludóttur. Keflvíkingar slitu sig samt frá á nýjan leik og leiddu 38-47 í hálfleik.
 
Á nýjan leik í þriðja leikhluta náðu KR-ingar að komast nærri og ná forystunni í fyrsta sinn síðan í stöðunni 2-0! Það gerðist eftir að Ingibjörg Jakobsdóttir fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir brot á Guðrúnu Gróu Þorsteinsdóttur. Skömmu síðar virtist KR þverra þrótturinn og enn eina ferðina sleit Keflavík sig frá meisturunum og leiddu 59-65 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Í fjórða leikhluta fengu þær Margrét Kara og Hildur Sigurðardóttir báðar sína fjórðu villu í liði KR og urðu að fara varlega. Keflvíkingar nýttu sér þetta vel og náðu að auka muninn í 12 stig, 63-75. Lokaatlaga KR í leiknum var þegar liðið gerði næstu sex stig í röð og minnkaði muninn í 69-75 en Keflavík kláraði leikinn 74-87 og vann því lokasprettinn 5-12.
 
Jaqueline Adamshick átti stórleik í liði Keflavíkur með 28 stig, 22 fráköst og 6 stoðsendingar. Magnaður leikmaður hér á ferðinni sem á vísast eftir að reynast Keflavík vel í vetur. Þá lét Hildur Sigurðardóttir ekki sitt eftir liggja hjá KR með 27 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar.
 
Stigaskor
 
KR: Hildur Sigurðardóttir 27/12 fráköst/7 stoðsendingar, Margrét Kara Sturludóttir 16/9 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 10/9 fráköst, Helga Einarsdóttir 9/6 fráköst/5 stoðsendingar, Hafrún Hálfdánardóttir 8/7 fráköst/5 stoðsendingar, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 2, Rut Konráðsdóttir 2, Aðalheiður Ragna Óladóttir 0, Kristbjörg Pálsdóttir 0, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 0, Ingunn Erla Kristjánsdóttir 0, Helga Hrund Friðriksdóttir 0.
 
Keflavík: Jacquline Adamshick 28/22 fráköst/6 stoðsendingar/3 varin skot, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 26/9 fráköst/5 stoðsendingar, Pálína Gunnlaugsdóttir 15, Bryndís Guðmundsdóttir 9/8 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir 9, Telma Lind Ásgeirsdóttir 0, Árný Sif Gestsdóttir 0, Eva Rós Guðmundsdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0, Aníta Eva Viðarsdóttir 0, Sigrún Albertsdóttir 0.
 
Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Jón Þór Eyþórsson

Texti og mynd/ Tomasz Kolodziejski
tomasz@karfan.is