Viðureign Serbíu og Tyrklands var að ljúka og var allt í járnum. Í fljótu bragði eru Tyrkir komnir áfram eftir eins stig sigur á Serbum og því munu Bandaríkin og Tyrkland mætast á morgun í úrslitaleik mótsins. Lokatölur í viðureign Tyrklands og Serba voru 83-82 Tyrkjum í vil.
Næstum of vægt er til orða tekið þegar sagt er að viðureign Tyrkja og Serba hafi verið rosaleg! Serbar leiddu í hálfleik 42-35. Að loknum þriðja leikhluta var munurinn kominn niður í þrjú stig Serbum í vil, 63-60. Þegar þrjár og hálf mínúta eru til leiksloka komast Tyrkir loks yfir og skotgrafarhernaðurinn hefst!
 
Þegar fjórar sekúndur eru eftir skorar Velikovic fyrir Serba og staðan 82-81 Serbíu í vil. Heimamenn tóku vitaskuld leikhlé og strax í næstu sókn fannst ný tyrknesk hetja að nafni Kerem Tunceri leikmaður Efes Pilsen. Tunceri skoraði körfu í teignum þegar ein sekúnda var til leiksloka og kom Tyrkjum í 83-82. Serbar tóku leikhlé og kom það í hlut Velikovic að taka lokaskotið. Semih Erden varði skot Velikovic, Tyrkir fögnuðu en eflaust hefur hver einasti Serbi í heiminum beðið um villu en það þýðir víst lítið að deila við dómarann.
 
Hedo Turkoglu var stigahæstur í liði Tyrkja með 16 stig en hjá Serbum var Marko Keselj með 18 stig.
 
Það eru því Bandaríkjamenn og Tyrkir sem leika til úrslita á morgun og Litháen og Serbía munu leika um bronsið.
 
Ljósmynd/ www.fiba.com – Kerem Tunceri með sigurstig leiksins!