Menn eru byrjaðir að spá og spekúlera fyrir komandi átök í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Á dögunum gaf Sporting News út nýtt tölublað þar sem Helena Sverrisdóttir og félagar í TCU lenda í 23. sæti yfir sterkustu skólalið landsins. Gefinn var út 25 liða listi og var TCU eina liðið í Mountain West riðlinum sem komst á lista blaðsins.
UConn skólinn var settur í 1. sæti en af þeim liðum sem komust á topp 25 listann mun TCU leika gegn fjórum þeirra, Oklahoma, Texas A&M, Iowa State og Georgia.
 
Það eru því sem fyrr miklar væntingar bornar til Helenu og félaga og verður fróðlegt að fylgjast með Hafnfirðingnum öfluga á sínu síðasta ári í skólanum.