Margföldum Íslandsmeisturum ÍR til armæðu verður Sveinbjörn Claessen ekki með liðinu fyrr en um áramótin en þetta staðfesti Gunnar Sverrisson þjálfari ÍR við Karfan.is í dag. Sveinbjörn er enn að glíma við meiðslin sem hann hlaut í upphafi síðustu leiktíðar.
,,Sveinbjörn verður frá til áramóta, því miður. En ég á von á honum sterkari en nokkru sinni fyrr og hann hefur tekið þessu af miklu æðruleysi og skynsemi því hann getur ekki beðið eftir því að fara að spila,” sagði Gunnar og þá er meiðslasögu ÍR ekki lokið.
 
Miðherjinn Kristinn Jónasson er smátt og smátt að komast aftur inn í ÍR hópinn eftir erfið bakmeiðsli og þá vonast Gunnar til þess að Eiríkur Önundarson verði orðinn klár í slaginn þegar nýja parketið verður tekið í notkun í Hellinum í Breiðholti. Eiríkur hefur ekki komist í 100% leikform síðan hann braut á sér aðra hnéskelina í fyrra.
 
Þá mættust svo ÍR og Njarðvík í æfingaleik síðastliðið fimmtudagskvöld þar sem Njarðvíkingar höfðu betur með naumindum, 76-74.
 
Ljósmynd/ Enn verður bið á endurkomu Sveinbjarnar.