Karfan.is birtir nú spá sína fyrir komandi leiktíð í Iceland Express deild kvenna. Leitað var fanga víða hjá boltaspekingum landsins sem komust af eftirfarandi niðurstöðu. Keflavíkurkonur þykja sigurstranglegar og var þeim spáð titlinum og nýliðum Fjölnis var spáð falli á nýjan leik í 1. deild kvenna.  
 
 
 
Í atkvæðagreiðslunni fékk Keflavík 72 stig en fast á hæla Keflvíkinga komu Haukakonur með 67 stig. Ríkjandi Íslandsmeistarar KR höfnuðu í 3. sæti með 64 stig. Taka skal fram að þetta er spá sem unnin er af Karfan.is og spekingum síðunnar en í næstu viku mun Körfuknattleikssamband Íslands birta sína eigin spá sem jafnan er unnin af þjálfurum og fyrirliðum liðanna í úrvalsdeildunum.
 
Spá Karfan.is 2010-2011 í Iceland Express deild kvenna:
 
Keflavík    72
Haukar     67
KR            64
Hamar     55
Njarðvík   33
Snæfell    31
Grindavík 26
Fjölnir      12
 
Ef glöggt er að gáð telja menn að deildin verði nokkuð tvískipt þar sem verulegur stigamunur er á milli fjögurra efstu liðanna og fjögurra neðstu. Keflavík, Haukar, KR og Hamar munu þá skipa efri hluta deildarinnar en Hamar sem er í 4. sæti í spánni fær 22 stigum meira en Njarðvík sem kemur í 5. sæti.
 
Fjölnir – 8. sæti:
Fjölniskonur komu sem nýliðar upp í deildina eftir sigur í 1. deild kvenna á síðustu leiktíð. Fjölnir fékk aðeins 12 stig hjá spámönnum Karfan.is en Grafarvogsliðið missti stóran spón úr aski sínum þegar Bergdís Ragnarsdóttir ákvað að ganga til liðs við KR. Það er þó huggun harmi gegn að Birna Eiríksdóttir, sem á síðustu leiktíð lék með Val, hefur snúið aftur í raðir Fjölniskvenna.
 
Grindavík – 7. sæti
Grindvíkingar máttu þola mikil ósköp þetta sumarið og er þeim spáð í 7. sæti deildarinnar. Jovana Lilja Stefánsdóttir, Ingibjörg Jakobsdóttir, Íris Sverrisdóttir og Petrúnella Skúladóttir sögðu skilið við liðið af hinum ýmsu ástæðum. Jóhann Ólafsson verður áfram þjálfari og mun mikið mæða á þeim systrum Helgu og Hörpu Hallgrímsdætrum ásamt danska bakverðinum Idu Treyggedsson sem kemur beint úr háskólaliði TCU þar sem hún lék með Helenu Sverrisdóttur.
 
Snæfell – 6. sæti
Snæfell er spáð 6. sætinu í deildinni en í fyrsta sinn í sögu félagsins tókst liðinu að tryggja sér sæti í úrslitakeppni úrvalsdeildar kvenna á síðasta tímabili þar sem liðið datt út í fyrstu umferð gegn Keflavík eftir tvo hörkuleiki. Snæfell teflir fram tveimur erlendum leikmönnum í vetur en þær léku aðeins með einn í fyrra en sumarið tók í burt tvo sterka leikmenn þær Gunnhildi og Unni sem báðar gengu til liðs við Hauka.
 
Njarðvík – 5. sæti
Á síðustu leiktíð rétt misstu grænar af úrslitakeppninni og þá undir stjórn Unndórs Sigurðssonar. Í sumar tók Sverrir Þór Sverrisson við liðinu og ef honum tekst að setja sinn stimpil á liðið verða Njarðvíkurkonur með hóp sem hræðist það ekki að fá marbletti. Njarðvíkurliðið er ungt að árum en verður með tvo erlenda leikmenn í vetur.
 
Hamar – 4. sæti
Silfurlið síðasta tímabils missti í sumar sterka leikmenn á borð við Hafrúnu Hálfdánardóttur (KR) og Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur (Frakkland). Engu að síður eru sterkir póstar í Hveragerði á borð við Kristrúnu Sigurjónsdóttur, Guðbjörgu Sverrisdóttur og Slavicu Dimovsku sem varð Íslandsmeistari á þarsíðustu leiktíð með Haukum.
 
KR – 3. sæti
Ríkjandi Íslandsmeisturum KR er spáð 3. sætinu að þessu sinni. Hrafn Kristjánsson tók við liðinu í sumar sem sá á eftir tveimur af sterkustu leikmönnum landsins, þeim Signýju Hermannsdóttur og Unni Töru Jónsdóttur. Viðbæturnar hafa þó verið fínar og ber þar helst að nefna Hafrúnu Hálfdánardóttur og Bergdísi Ragnarsdóttur. Forystuhlutverkunum munu þó Hildur Sigurðardóttir, Margrét Kara Sturludóttir og Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir gegna.
 
Haukar – 2. sæti
Subwaybikarmeistarar Hauka eru komnir með djúpa vasa í leikmannamálum ef svo má að orði komast en það er ekki oft sem lið í úrvalsdeild ná viðlíka breidd með sinn hóp. Í sumar bættust við þær Gunnhildur og Unnur frá Snæfell og Íris frá Grindavík ásamt Þórunni Bjarnadóttur úr Val. Viðbót við þegar reyndan en ungan hóp Hauka og fróðlegt að sjá hvað Henning Henningsson þjálfari liðsins mun gera við þennan breiða hóp.
 
Keflavík – 1. sæti
Keflvíkingar líta vel út þessi misserin þrátt fyrir að Svava Stefánsdóttir og Hrönn Þorgrímsdóttir verði ekki með í vetur. Svava frá sökum barneigna og Hrönn frá a.m.k. fram að áramótum vegna náms. Bandaríski leikmaðurinn Jaqueline Adamshick lítur vel út og ætlar að verða hið mesta tvennutröll og þá bættust við tveir sterkir leikmenn í þeim Ingibjörgu Jakobsdóttur og Hrund Jóhannesdóttur þetta sumarið. Keflvíkingar þykja líklegir til afreka enda valinn leikmaður í hverju rúmi og munu þær Birna Valgarðsdóttir, Pálína Gunnlaugsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir leiða liðið áfram ásamt Adamshick í bland við unga og efnilega landsliðsmenn sem eru að stíga upp í meistaraflokkinn. Þar má telja t.d. Evu Rós Guðmundsdóttur og Lovísu Falsdóttur sem hafa verið ákaflega sigursælar með Keflavík upp alla yngri flokkana.
 
Keppni í Iceland Express deild kvenna hefst svo miðvikudaginn 6. október næstkomandi með heilli umferð:
Haukar-KR
Grindavík-Fjölnir
Hamar-Snæfell
Njarðvík-Keflavík
 
Lokahnykkur undirbúningstímabilsins er svo um helgina þegar meistarakeppnin fer fram en þá mætast Íslands- og bikarmeistarar síðasta árs. Í karlaflokki mætast Snæfell og Grindavík en í kvennaflokki mætast KR og Haukar en báðir leikirnir fara fram í Stykkishólmi.

Ljósmynd/Tomasz Kolodziejski – tomasz@karfan.isKeflavík er Lengjubikarmeistari 2010