Frakkar hrífast mjög svo af Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur þessa dagana en í sumar söðlaði hún um, kvaddi blómabæinn Hveragerði og hélt til Frakkalands þar sem hún leikur nú með Olympique Sannois Saint-Gratien í frönsku NF2-deildinni.
Frönskukunnátta greinarhöfundar er við frostmark og því var leitað til hollvinar Karfan.is sem er vel að sér í málinu og þar kom í ljós að Frakkar eru stórhrifnir af framgöngu Sigrúnar.
Í grófum dráttum sagt þá er Sigrún að leika vel og fellur vel að liðsheild Saint-Gratien. ,,Hin vinalega Amundadottir er perla liðsins,” segir í greininni. Þá segir undir myndinni af Sigrúnu sem fylgir greininni að hún sé uppgötvun tímabilsins.