Í dag hófust 8-liða úrslitin á Heimsmeistaramótinu í körfuknattleik með sannkölluðum stórleikjum. Skemmst er frá því að segja að Serbía og heimamenn í Tyrklandi hafi nú tryggt sér sæti í undanúrslitum mótsins.
Serbía 92-89 Spánn
Milos Tedosic reyndist hetja Serba þegar hann smellti niður þrist er þrjár sekúndur voru til leiksloka. Spánverjar náðu ekki að svara í næstu sókn þar sem þeir misstu boltann og Serbar fögnuðu sigri. Marko Keselj og Novica Velickovic voru atkvæðamestir í liði Serba báðir með 17 stig en hjá Spánverjum var Juan Carlos Navarro með 27 stig og 5 stoðsendingar.
 
Tyrkland 95-68 Slóvenía
Slóvenar voru engin fyrirstaða gegn heimamönnum og snemma var ljóst í hvað stefndi þegar Tyrkir leiddu 27-14 að loknum fyrsta leikhluta. Ersan Ílyasova var stigahæstur í liði Tyrkja með 19 stig en hjá Slóvenum var Bostjan Nachbar leikmaður Efes Pilsen með 16 stig.
 
Á morgun mætast svo Bandaríkin og Rússland í fyrri leik dagsins kl. 15:00 að íslenskum tíma og kl. 18:00 mætast Argentína og Litháen.
 
Ljósmynd/ www.fiba.com Tedosic sendir Spánverja heim!