Sinn er siður í hverju landi og því fá dansmeyjar FIBA nú að kynnast á Heimsmeistaramótinu í körfuknattleik. Dansararnir hafa nú verið bannaðir á leikjum heimamanna í Tyrklandi því klæðaburður þeirra og trakteringar á parketinu þykja móðgandi í Tyrklandi en Tyrkir eru að langstærstum hluta múslimar. Samkvæmt Íslam er konum ekki leyfilegt að sýna bert hold á almannafæri. 
Framkvæmdastjóri FIBA, Patrick Baumann, áréttaði að bannið væri ekki ákvörðun stjórnarinnar heldur væri hér um að ræða nokkurskonar hagræðingu. Í gær svo þegar Bandaríkin og Íran mættust voru dansararnir í síðbuxum því í fyrri leikjum þar sem t.d. íranskir dómarar höfðu átt í hlut höfðu þeir snúið sér undan flenniháttum dansaranna sem þá voru fáklæddari en í viðureign Bandaríkjamanna og Írana.
 
Danshópurinn sem um ræðir heitir Red Foxes og kemur frá Úkraínu mun héðan í frá ekki sýna listir sínar í leikjum Tyrkja en verða vitaskuld í stuði á öðrum leikjum. Er þá viðbúið að margir vendi sínu kvæði í kross í stuðningi við Tyrki enda má deila um það hvort fleiri myndir séu teknar af körfuboltaleikjunum sjálfum eða dönsurunum.
 
Ekki fæst uppgefið nákvæmlega hvernig banninu á Red Foxes var ýtt í gegn en eitthvað hefur það að gera með helstu fyrirmenni Tyrkja sem von er á að sæki leiki sinna manna á næstunni.
 
Ljósmynd/ Red Foxes dansararnir frá Úkraínu hafa stigið sitt síðasta spor í leikjum heimamanna.