Áralangri vinnu í Garðabænum er nú að berast ávöxtur hægt og rólega en það eru ekki mörg ár síðan að menn köstuðu því fram að ljósár væru þangað til félagið færi að skila leikmönnum upp úr yngri flokkum í meistaraflokkinn. Nýjasti liðsmaður meistaraflokks Stjörnunnar af færibandinu er Dagur Kár Jónsson leikmaður í 10. flokki félagsins en þar fer efnilegur bakvörður og fleiri eru farnir að banka. Ungir menn í Garðabæ verða þó að spýta í lófana því um þessar mundir er valinn maður í hverju rúmi hjá Stjörnunni og margir sem búast við liðinu sterku á komandi tímabili. 
Komnir:
Marvin Valdimarsson
Daníel Guðni Guðmundsson
 
Farnir:
Ólafur Jónas Sigurðsson
Magnús Helgason
 
,,Staðan á hópnum okkar er fín og markmiðið er að gera betur en í fyrra, komast í fjögurra liða úrslit og gera miklu betur í bikarnum,” sagði Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar sem mátti þola tap í fyrstu umferð bikarkeppninnar á síðustu leiktíð er liðið lá gegn Keflavík. ,,Ólafur Aron og Guðjón Lárusson eru nú heilir heilsu og Birgir (Björn Pétursson) hefur tekið gríðarlegum framförum á þessu ári og mun líkast til spila meira í ár en í fyrra,” sagði Teitur en hvernig líst honum á önnur lið í deildinni?
 
,,Hef enga hugmynd, flest lið eru komin óvenju skammt á veg ef mið er tekið af æfingamótum, óvissa með útlendinga setur einnig allt í óvissu. Það er ekki hægt að meta þetta almennilega fyrr en liðin eru fullmönnuð.”
 
Athyglisvert verður að fylgjast með Stjörnunni í vetur en með komu Marvins Valdimarssonar í Garðabæinn er þrír af stigahæstu leikmönnum síðasta tímabils komnir saman undir einn hatt, Marvin, Justin Shouse og Jovan Zdravevski.
 
 
Ljósmynd/ Sem fyrr verður Jovan önnum kafinn með Garðbæingum.