Þá er röðin komin að Íslands- og bikarmeisturum Snæfells. Þungamiðja liðsins, Hlynur Bæringsson, er horfinn á Braut og þó sterkir leikmenn hafi sagt skilið við Hólminn að sinni urðu þó einhverjar viðbætur í sumar. Við tókum Púlsinn á Inga Þór Steinþórssyni þjálfara karla- og kvennaliða Snæfells en hann tók báða stóru titlana með Hólmurum í fyrra á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari liðsins.
Komnir:
Atli Rafn Hreinsson frá KFÍ
Daníel Kazmi frá Val
Ryan Anthony Amoroso
 
Farnir:
Hlynur Elías Bæringsson í Sundsvall Dragons í Svíþjóð
Martins Berkis til Slóvakíu
Páll Fannar Helgason í Val
 
,,Liðið mun þurfa að styrkja sig fyrir átökin í deildinni en það er allt í vinnslu. Sean Burton leikur áfram með liðinu. Það er á tandurhreinu að Ungmennafélaginu vantar kjöt í litaða svæðið þrátt fyrir að leikmenn liðsins hafa lyft af krafti í sumar. Sterkur kjarni mun ekki leika með liðinu í vetur en það eru tækifæri fyrir leikmenn til að stíga á stóra sviðið og njóta þess að leika fyrir Snæfell. Við munum tefla fram skemmtilegu liði og taka þátt í baráttunni á öllum vígstöðum en til þess þurfa leikmenn að vera fókusaðir á verkefnin sem við höfum framundan. Við erum ákaflega stoltir af síðasta tímabili sem aldrei verður toppað enda í fyrsta skipti sem Snæfell vinnur Íslandsmeistaratitil auk þess að verða líka bikarmeistarar á sama tímabili og sú tilfinning fyrir félagið er og verður ávallt sérstök. Á bakvið liðið er góður hópur af fólki í stjórn og Snæfell á líka frábæra stuðningsmenn víða um land sem ættu að hvetja leikmenn til að ná fram hámarks árangri,” sagði Ingi Þór og telur uppeldisfélagið sitt líklegt til afreka á tímabilinu.
 
,,KR-ingar eru með hörku mannskap og ættu að gera tilkall í alla tiltla líkt og fyrirliði liðsins hefur gefið út, það eru Keflvíkingar líka. Liðin hafa orðið fyrir litlum breytingum eins og Stjarnan sem hafa tækifæri í ár að gera fína hluti. Ég tel að ungt og skemmtilegt lið Fjölnismanna eigi eftir að koma öllum á óvart og enda ofarlega í töflunni á næstu leiktíð. Mörg lið eru að tefla fram skemmtilegum leikmannahópum og verður fróðlegt að fylgjast með hvernig þetta allt saman fer, en ég vona körfuboltans vegna á Íslandi að deildin verði jöfn og skemmtileg og leikirnir laði sem flesta áhorfendur til að horfa.”
 
 
LjósmyndIngi Þór með Íslandsmeistaratitilinn í Toyota-Höllinni á síðustu leiktíð.