Með Pavel Ermolinskij innanborðs verður óneitanlega erfitt að halda KR frá toppnum. Pavel er einn sterkasti leikmaður þjóðarinnar og fær það hlutverk að leiða nokkuð breytt KR lið inn í komandi tímabil. Hrafn Kristjánsson tók við þjálfun KR í sumar og mun stýra bæði karla- og kvennaliði félagsins í vetur. 
Farnir: Kristófer Acox (USA), Björn Kristjánsson (USA), Tommy Johnson, Morgan Lewis, Darri Hilmarsson (Hamar), Ellert Arnarsson (Hamar), Steinar Kaldal (hættur).
 
Komnir: Hreggviður Magnússon (ÍR), Ágúst Angantýsson (Breiðablik), Matthías Sigurðsson (yngri flokkum), Martin Hermannsson (yngri flokkum).
 
,,Staðan á hópnum er með ágætasta móti. Strákarnir hafa verið mjög einbeittir á undirbúningstímabilinu og æft af krafti. Hvað markmið varðar hafa þau verið þau sömu í Vesturbænum síðan ég man eftir mér og breytast varla í bráð. Þessi klúbbur vill berjast um titlana í lok hvers tímabils nú sem áður. Við erum að skoða hvort réttast sé að stökkva til og fá til okkar erlendan bakvörð en ef einhverju mætti við bæta er það sennilega snöggur leikmaður sem getur skilað góðri varnarvinnu á sneggstu bakverði deildarinnar,“ sagði Hrafn og telur að áhugavert verði að fylgjast með ungu og efnilegu liði Fjölnis á tímabilinu.
 
,,Mér líst vel á deildina þetta tímabilið og sýnist hún jafnvel ætla að verða jafnari en í fyrra. Við fyrstu sýn sýnist mér Stjarnan og Keflavík mæta gríðarsterk til leiks á meðan lið Njarðvíkur og Snæfellinga eru meiri spurningarmerki vegna breytinga í leikmannahópnum. Ef þau lið hitta á góða útlendinga verða þau þó líka í toppbaráttunni. Einnig verður mjög áhugavert að fylgjast með Fjölnismönnum sem tefla fram mjög efnilegu og harðskeyttu liði sem er ofboðslega fljótt upp völlinn. Annars eru fullt af öðrum liðum sem gætu vel blandað sér í baráttuna og ljóst að engir leikir geta talist léttir fyrir fram.“
 
 
Ljósmynd/ Jón Björn Ólafsson: Pavel verður mörgum varnarmanninum þungur í skauti og sóknarmanninum líka ef því er að skipta!