Keflvíkingar lönduðu silfrinu á síðustu leiktíð eftir oddaviðureign gegn Snæfellingum. Einhverjar breytingar hafa orðið á hópnum í Toyota-höllinni og við fengum Guðjón Skúlason þjálfara liðsins til þess að færa okkur púlsinn af sínum mönnum. 
Komnir:
Sigmar Logi Björnsson, UMFT
Elvar Sigurjónsson, Þór Akureyri
Arnar Freyr Jónsson, Grindavík
Halldór Örn Halldórsson, meiddur í heilt ár.
Von á erlendum leikmanni/mönnum.
 
Farnir:
Arnar Freyr Jónsson, Danmörk
Davíð Þór Jónsson, smá pása.
Sverrir Þór Sverrisson, UMFN (þjálfari kvennaliðs UMFN)
Guðmundur Auðunn Gunnarsson, FSU
Almar Guðbrandsson, UMFG
Alfreð Elíasson,
Draelon Burns, Kína
Urule Igbavboa, Ítalía
 
,,Staðan er ágæt ef tekið er mið af því að við gátum ekki æft í okkar íþróttahúsi fyrr en eftir 6. september og hefur það verið púsl að koma þessu saman. Leikmenn eru að komast í form og leikskipulag að formast. Við munum fara í helgarferð til Kaupmannahafnar (4 liða mót) og slípa til hópinn. Ég er með fimm unga drengi sem eru að stíga sín fyrstu spor í meistaraflokki í bland við eldri og reyndari menn og markmiðin eru alltaf þau sömu og væntingar áhangenda miklar,“ sagði Guðjón sem telur KR með sterkasta hópinn.
 
,,Ég er ekki farinn að velta öðrum liðum mikið fyrir mér en ætli þetta verði ekki svipað og í fyrra. Líklega er KR með sterkasta hópinn og eins og í fótboltanum eiga þeir titilinn vísann. Ekki vanmeta þó Suðurnesin.“
 
 
Ljósmynd/ Toyota-höllin hefur reynst aðkomuliðum þungur ljár í þúfu og þar verða engar breytingar á þetta tímabilið ef Guðjón Skúlason fær einhverju um það ráðið.