Á síðustu leiktíð börðust Hamarsmenn fyrir lífi sínu í Iceland Express deildinni. Við botninn var allt stál í stál ef lið FSu er tekið út úr myndinni en Hamarsmenn luku keppni í 10. sæti deildarinnar og vantaði aðeins herslumuninn upp á að komast í úrslitakeppnina. Ágúst Sigurður Björgvinsson heldur inn í annað árið sitt í Hveragerði þar sem hann stjórnar bæði karla- og kvennaliði félagsins og hafa ekki síður orðið breytingar á karlaliðinu líkt og hjá konunum. 
,,Það eru gríðalega miklar breytingar á liðinu hjá okkur í Hveragerði. Marvin Valdimarsson fór í Sjörnuna, Oddur Ólafsson til Bandaríkjanna, Páll Helgason í læknisnám erlendis, Viðar Hafsteinsson sneri aftur í heimaliðið Hött og Hjalti Valur Þoreinsson fór í Þór Þorlákshöfn. Það eru þó nokkuð margir leikmenn einnig komnir til liðs við okkur, en það eru þeir Darri Hilmarsson og Ellert Arnarsson frá KR, Kjartan Kárson FSu, Nerijus Taraskus og Darrel Lewis,“ sagði Ágúst sem einnig teflir fram Ragnari Nathanelssyni en þar er á ferðinni 218 sm. hár miðherji sem gerði 3,5 stig og tók 7,2 fráköst að meðaltali í leik með Hamri í fyrra er hann þeytti frumraun sína í efstu deild.
 
Ágúst kvað stöðuna á leikmannahópnum fína og að markið væri að stefna hærra og miðað við gengi síðasta árs má áætla að Hamarsmenn ætli sér inn í úrslitakeppnina. En hvernig meta Hvergerðingar önnur lið í deildinni um þessar mundir?
 
,,KR og Keflavík hafa misst lítið að lykilleikmönnum og hljóta því að vera sterkir, einnig má búast við Stjörnumönnum sterkum með þrjá af stigahæstu leikmönnum deildarinnar saman í liði. Grindavík og Njarðvíker eru eflaust að blanda sér í þetta en önnur lið eru spurningamerki. Auðvitað munu útlendingar geta miklu breytt fyrir lið og það er ómögulegt að segja til um hvernig þetta verður áður en öll lið verða fullmönnuð.“
 
 
Ljósmynd/ Mikið mun mæða á miðherjanum Ragnari í liði Hamars þetta tímabilið en þessi 19 ára gamli leikmaður er gríðarleg ógn í teignum.