Michael Fratangelo er farinn til síns heima eftir vonbrigðadvöl hjá Tindastóli nú á undirbúningsímabilinu. Leikmaðurinn reyndist meiddur þegar hann kom í Skagafjörðinn og náði aldrei að sýna sitt rétta andlit. www.tindastoll.is greinir frá.
Vera Michaels Fratangelos varð styttri en fyrirhugað var í Skagafirði, þar sem í ljós kom að leikmaðurinn var meiddur við komuna til Tindastóls og náði sér ekki af meiðslunum sem hrjáðu hann meira en hann sjálfur hafði gert ráð fyrir. Varð þetta talsvert áfall fyrir Tindastólsliðið enda átti hann að verða leikstjórnandi liðsins auk þess sem hann gat spilað fleiri stöður á vellinum.
 
Josh Rivers, sem upphaflega átti að koma til Tindastóls en hætti við það sökum mikils tíma sem fór í fyrir hann að afla sér sakavottorðs frá FBI, er nú aftur á leiðinni til félagsins, þar sem hann er kominn með öll tilskilin gögn til að verða hér löglegur leikmaður. Búist er við því að Josh komi til landsins öðru hvoru megin við aðra helgi, en það veltur sannarlega á leyfismálum hans hjá Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun, sem þó afgreiða leyfi snarlega reynist öll gögn vera í lagi.
 
Tindastóll heldur í æfingaleikjaferð suður á bóginn um næstu helgi, en þar verður leikið gegn Stjörnunni á laugardag, Þór Þorlákshöfn á sunnudagsmorgun og við Skallagrím seinni part sunnudags.
 
Ljósmynd/ Josh Rivers kemur á Krókinn von bráðar.