Þrír leikir fóru fram í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld sem markaði þar með lok annarar umferðar í deildinni. Magnús Þór Gunnarsson og Axel Kárason máttu báðir þola ósigur með sínum liðum en Guðni vann Íslendingaslaginn.
Guðni Valentínusson og félagar í Bakken Bears tóku á móti Magnúsi Þór og félögum í Aabyhoj í kvöld. Lokatölur reyndust 77-53 Bakken í vil. Guðni lék í 10 mínútur í leiknum og skoraði 6 stig. Magnús Þór gerði 3 stig í leiknum á rúmum 27 mínútum og setti 1 af 6 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Bakken hefur unnið tvo fyrstu leiki sína á tímabilinu en Aabyhoj tapað einum og unnið einn.
 
Axel Kárason og Værlöse tóku á móti SISU og máttu sætta sig við naumt 80-85 tap. Axel átti fínan leik með 7 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar á rúmum 28 mínútum. Værlöse hefur tapað báðum leikjum sínum í deildinni.
 
Í gær var Sigurður Þór Einarsson svo í eldlínunni með Horsens IC sem sótti heim BK Amager. Horsens náði í góðan útisigur 73-91 þar sem Sigurður gerði 10 stig og gaf 3 stoðsendingar á 8 mínútum.
 
Aðeins þrjú lið í dönsku deildinni eru enn ósigruð, Guðni og félgar í Bakken, Sigurður og Horsens IC og svo Svendborg Rabbits.
 
Ljósmynd/ Sigurður og félagar í Horsens IC byrja vel.