Seinni undanúrslitaviðureign dagsins er milli Serba og heimamanna í Tyrklandi. Liðin etja kappi kl. 18:30 að íslenskum tíma en það má með sanni segja að Istanbúl verði iðandi í kvöld þegar heimamenn stíga á stóra sviðið. Leikurinn hefst kl. 18.30 að íslenskum tíma. Karfan.is tók fyrir tvo leikmenn í liði beggja landa, litum aðeins á ferilinn þeirra og hvernig þeim hefur gengið á HM.
Tyrkland
 
Semih Erden:
Hinn 24 ára gamli Semih Erden er nýjasta NBA-afurðin sem kemur frá Evrópu. Miðherjinn stóri og stæðilegi samdi við stórlið Boston Celtics í sumar og verður varaskeifa fyrir hinn íturvaxna Shaquille O´Neal næsta tímabil. Erden ólst upp hjá liðinu Darussafaka frá Istanbul. Hann vakti mikla athygli þar og fór til Partizan Belgrad aðeins 16 ára gamall og var hluti af meistaraflokki félagsins sem varð serbneskur meistari tímabilið 2005-2006. Sumarið 2006 fór hann aftur heim til Istanbúl og gekk til liðs við Fenerbache. Lék hann með liðinu í fjögur ár þar til hann fór til Boston fyrr í sumar. Erdem er hluti af sterkri liðsheild Tyrkja á mótinu en hann er með 9.1 stig og 5.1 fráköst að meðaltali í leik. Hann er búinn að vera hluti af tyrkneska landsliðinu síðan árið 2005 en þá lék hann með liðinu á EM.
 
Kerem Tunceri:
Ein skærasta stjarna Tyrkja á HM en Kerem Tunceri. Bakvörðurinn snjalli er límið í vörn Tyrkja sem hefur farið illa með hvern andstæðinginn á fætur öðrum. Fyrir nokkrum árum leit út fyrir að landsliðsferli Tunceri væri lokið þegar þjálfari liðsins ákvað að yngja upp í bakvarðasveit liðsins og valdi hann ekki í liðið í tvö ár. Í stað þess að leggjast í volæði æfði Tunceri meira og bætti leik sinn. Var hann valinn aftur í landsliðið og er nú einn helsti leikmaður liðsins. Hann ólst upp hjá Galatasaray en gekk svo til liðs við Efes Pilsen árið 2000. Lék hann þar í nokkur ár og fór svo Fenerbache og Besiktast áður en hann samdi við Real Madrid. Lék með þeim frá 2006-2008 og varð meistari árið 2007. Að loknu ferli sínum á Spáni fór hann Rússlands árið 2008 og gekk til liðs við Triumoh Lyubersty. Gekk það ekki alveg upp og kom aftur til Efes Pilsen í janúar mánuði árið 2009. Hann er með 5.8 stig og 3.7 stoðsendingar í leik á HM til þessa. Tunceri er í byrjunarliði Tyrkja og verður spennandi að sjá hann slást við bakverði Serba í dag.
 
 
 
Serbía
 
Milos Teodosic:
Stjarna Teodosic skaust upp á stjöruhiminn á HM eftir ótrúlegt skot hans gegn Spánverjum sem tryggði Serbum sigurinn í 8-liða úrslitum. Teodosic sem er 23 ára gamall er einn besti bakvörður Evrópu en Serbinn snjalli er á mála hjá stórliði Olympiacos í Grikklandi. Hann ólst upp hjá FMP Zeleznik í heimalandinu sem er þekkt fyrir að framleiða leikmenn. Hann var lánaður til Borac Cacak sumarið 2005 til að öðlast meiri reynslu. Hann lék þar í eitt tímabil áður en hann fór aftur til FMP Zeleznik þar sem hann varð einn eftirsóttasti Serbinn. Hann vakti mikla athygli á EM U20 árið 2007 þar sem hann leiddi lið Serba til sigurs og var valinn besti leikmaður mótsins. Hann gekk til liðs við Olympiacos sumarið 2008 og hefur leikið þar síðan. Hann varð stjarna á EM í fyrra í Póllandi þegar óreynt serbneskt lið fór alla leið í úrslit en tapaði stórt fyrir Spánverjum. Hann er áberandi í öllum sóknaraðgerðum Serba en hann er með 11.4 stig, 4.8 stoðsendingar og 3.2 fráköst í leik á mótinu.
 
Novica Velickovic:
Velickovic er eins og Milos Teodosic hluti af nýju kynslóðinni hjá Serbum. Hann sprakk út á EM í fyrra þar sem hann var með um 11 stig í leik fyrir Serbana. Hann ólst upp hjá stórliði Partizan og fór sumarið 2009 til Ettore Messina í Real Madrid. Hann átti erfitt uppdráttar á síðasta ári með spænska stórveldinu en næsta ár gæti orðið áhugavert hjá honum enda hefur hann átt frábært sumar. Velickovic er vanur að vinna enda hefur Partizan verið sterkasta lið Serba undanfarin ár. Ásamt því að vinna í heimalandinu hefur hann verið sigursæll með yngri landsliðum Serba og var hann í sigurliðu U20 ára lið Serba árið 2006. Hann var valinn efnilegasti leikmaður meistaradeildarinnar fyrir tímabilið 2008-09. Framherjinn sterki er með 10.9 stig og 5.1 fráköst í leik á HM til þessa.
 
Ljósmynd/ Novica Velickovic er nútíma framherji – frábær íþróttamaður sem getur allt.