Í dag mætast Bandaríkin og Litháen í undanúrslitum Heimsmeistaramótsins sem fram fer í Tyrkalndi. Leikur liðanna hefst kl. 16:00 að íslenskum tíma en það lið sem hefur sigur í dag mætir annað hvort Serbum eða Tyrkjum í úrslitum mótsins á morgun, sunnudag. Karfan.is tók fyrir tvo leikmenn í liði Bandaríkjanna og Litháen, litum aðeins á ferilinn þeirra og hvernig þeim hefur gengið á HM.
Bandaríkin
 
Chaunsey Billups:
Leikstjórnandi hjá bandaríska liðinu sem í dag leikur með Denver Nuggets í NBA deildinni en leikmaðurinn er einmitt fæddur í Denver árið 1976. Árið 1997 var Billups valinn í nýliðavalinu af Boston Celtics og á miðju fyrsta ári var honum skipt til Toronto Raptors fyrir Kenny Anderson. Að því loknu fór Billups til Denver og þaðan til Orlando Magic. Árið 2002 fer Billups til Detriot Pistons þar sem hann öðlast nafnið ,,Mr Big Shot“ fyrir að smella niður stórum körfum þegar allt var í járnum. Í dag leikur hann með Denver Nuggets og bandaríska liðinu á HM þar sem hann hefur gert 11,6 stig að meðaltali í leik í Tyrklandi. Billups varð NBA meistari árið 2004 og var það ár valinn besti leikmaður úrslitanna. Fimm sinnum hefur hann verið valinn í Stjörnuleikinn og tvisvar sinnum í varnarlið NBA, árin 2005 og 2006.
 
Kevin Durant:
Framherjinn Kevin Durant er einn stigahæsti leikmaður Bandaríkjanna á HM með 19,9 stig að meðaltali í leik. Durant er fæddur árið 1988 og er því 12 árum yngri en Billups. Durant var valinn í nýliðavalinu af Seattle Supersonics og var valinn nýliði ársins. Í dag leikur Durant með Oklahoma City Thunder þar sem hann var með 30,1 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili sem er gríðarlegt stökk hjá kappanum. Á sínu fyrsta ári hjá Seattle var Durant með 20,3 stig, á öðru ári lék hann með Oklahoma og gerði 25,3 stig en á síðustu leiktíð sprakk maðurinn út með 30,1 stig að meðaltali í leik og lék 6 leiki með liðinu í úrslitakeppni NBA deildarinnar þar sem hann gerði 25 stig að meðaltali í leik. Durant var hlaðinn lofi og verðlaunum eftir síðustu leiktíð þar sem hann var valinn í stjörnuliðið, var stigakóngur deildarinnar og valinn í NBA First Team.
 
Litháen
 
Linas Kleiza:
Á því leikur enginn vafi að Linaz Kleiza, framherji Litháa, er einhver sterkasti maður liðsins á HM. Kleiza er með 19,1 stig að meðaltali í leik en hann leikur með Toronto Raptors í NBA deildinni. Kleiza er fæddur árið 1985 en fór bæði í miðskóla og háskóla í Bandaríkjunum. Í háskóla lék hann með University of Missouri Tigers en framan af gekk lítið hjá Kleiza í NBA svo á síðasta tímabili lék hann með Olympiacos í Grikklandi þar sem hann gerði 17,2 stig og tók 6,4 fráköst að meðaltali í leik. Samningurinn við Olympiacos var til tveggja ára en þegar Toronto Raptors komu fagnandi náði Kleiza að fá sig lausan frá Grikklandi og talið er að samningur Litháans við Toronto sé að andvirði 20 milljón Bandaríkjadala.
 
Jonas Maciulis:
Leikmaður Armani Jeans Milano á Ítalíu. Jonas er fæddur árið 1985 líkt og Kleiza og er næst stigahæsti Litháinn á HM með 9,9 stig að meðaltali í leik. Jonas er sléttir tveir metrar og leikur stöðu framherja. Jonas hefur leikið sem atvinnumaður frá árinu 2004 og á þriggja stiga metið í úrvalsdeildinni í Litháen með 8 þrista í röð í einum leik. Samningur Jonasar við Armani Jeans er talinn vera um 1,2 milljónir Evra eða rétt rúmar 180 milljónir króna.
 
Ljósmynd/ Kevin Durant leikmaður bandaríska liðsins er að finna sig vel í Tyrklandi sem og Linas Kleiza leikmaður Litháen.