Mike Krzyzewski, þjálfari Bandaríkjanna, og Kevin Durant, leikmaður liðsins, segja að leikur liðsins í dag gegn Íran snúist eingöngu um körfubolta. Eins og flestir vita eru þessar tvær þjóðir seint taldar til vinaþjóða enda ríkir mikil spenna í samskiptum þjóðanna.
,,Við erum bara að spila körfubolta,” sagði Kevin Durant og bætti við. ,,Pólitíska ástandið er eitthvað sem við getum ekki stjórnað. Við verðum bara að mæta og spila körfubolta.”
 
Þjálfari liðsins Mike Krzyzewski tók undir orð Durants og lagði áherslu á að íþróttin er það sem skiptir máli. ,,Þetta er íþróttaviðburður. Við virðum Íran,” sagði hann. ,,Ég spilaði reyndar gegn þeim á 8. áratugnum þegar ég var í hernum. Ég kann að meta Írani. Þeir eru mjög miklir íþróttamenn og við fáum alvöru leik,” sagði þjálfari Bandaríkjanna.
 
Patrick Baumann, framkvæmdastjóri FIBA, sagði að körfubolti væri alheimsíþrótt. ,,Þetta er einn af 80 leikjum sem fara fram á mótinu og við erum vissir um að hann fari drengilega fram. Körfubolti er sannarlega alheimsíþrótt og afl til góðra hluta. Hann sameinar þjóðir. Mótið hefur hingað til verið spennandi og ég er viss um að þessi leikur auki á spennuna í því.”
 
Ljósmynd/ Hamed Haddadi er leikmaður Írans og Memphis Grizzlies í NBA.