Keflavík er Lengjubikarmeistari í kvennaflokki 2010 eftir öruggan 101-70 sigur á Íslandsmeisturum KR í Laugardalshöll. Þrír leikmenn Keflavíkurliðsins gerðu 20 stig eða meira í leiknum og þeirra atkvæðamest var Pálína Gunnlaugsdóttir með 26 stig sem sjóðhitnaði í síðari hálfleik eftir magnaða flautukörfu í lok fyrri hálfleiks.
Hafrún Hálfdánardóttir var að finna sig vel í Höllinni og gerði fyrstu sex stig KR í leiknum og Margrét Kara kom KR svo í 8-2 áður en Keflvíkingar rönkuðu við sér. Jaqueline Adamshick ætlaði sér ekki að vera neinn áhorfandi í dag og dreif Keflvíkinga áfram sem fljótlega snéru taflinu sér í við og leiddu síðan 17-23 að loknum fyrsta leikhluta. Adamshick er stekrur leikmaður sem sækir grimmt á körfuna og safnaði vel af villum í dag á varnarmenn KR.

 
Íslandsmeistarar KR reyndu fyrir sér í svæðisvörn í öðrum leikhluta en Keflvíkingar létu það ekki á sig fá og komust í 17-27. Um miðbik leikhlutans náði KR að komast yfir 32-31 en Keflvíkingar leiddu þó í hálfleik 34-42 eftir magnaða flautukörfu. Marín Rós Karlsdóttir stal þá boltanum og fann Pálínu Gunnlaugsdóttur sem smellti niður flautuþrist og munurinn 8 stig í leikhléi.
 
Jaqueline Adamshick var með 15 stig og 11 fráköst í Keflavíkurliðinu í hálfleik en hjá KR var Margrét Kara Sturludóttir með 8 stig og 2 fráköst. Báðir miðherjar KR, þær Hafrún Hálfdánardóttir og Helga Einarsdóttir, voru komnir með 3 villur í hálfleik og máttu því ekki við miklu í þeim síðari.
 
Í þriðja leikhluta sýndu Keflvíkingar mátt sinn, Pálína Gunnlaugsdóttir hrökk í gír og raðaði niður körfum og Birna Valgarðsdóttir lék einnig vel. Sterk vörn Keflavíkur reyndist KR þungbær og eftir þrjá þrista í röð frá Pálínu var staðan 42-61 Keflavík í vil og leiddu þær keflvísku 53-75 eftir þriðja leikhluta sem þær unnu 19-33!
 
Eftirleikurinn reyndist Keflavík auðveldur og á lokasprettinum fengu yngri leikmenn liðanna að spreyta sig en lokatölur reyndust 70-101 Keflavík í vil sem eru Lengjubikarmeistarar 2010.
 
Svava Stefánsdóttir, Hrund Þorgrímsdóttir og Rannveig Kristín Randversdóttir léku ekki með Keflavík í dag. Svava verður vísast ekki meira með í vetur hjá Keflavík þar sem hún er með barni og Hrund ekki með fyrir áramót hið minnsta sökum krefjandi náms. Þá er Rannveig að glíma við meiðsli.
 
Stigaskor leiksins:
 
KR: Margrét Kara Sturludóttir 18/4 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 13/6 fráköst/5 stoðsendingar, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 12/8 fráköst, Helga Einarsdóttir 6/7 fráköst, Bergdís Ragnarsdóttir 6/4 fráköst, Hafrún Hálfdánardóttir 6/4 fráköst, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 5/4 fráköst, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir 2, Rut Konráðsdóttir 2, Kristbjörg Pálsdóttir 0, Helga Hrund Friðriksdóttir 0, Aðalheiður Ragna Óladóttir 0.
 
Keflavík: Pálína Gunnlaugsdóttir 26, Jacquline Adamshick 22/23 fráköst/5 stoðsendingar, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 21/12 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 8/9 fráköst, Hrund Jóhannsdóttir 6/4 fráköst, Eva Rós Guðmundsdóttir 5, Marín Rós Karlsdóttir 5, Sigrún Albertsdóttir 2, Árný Sif Gestsdóttir 2, Lovísa Falsdóttir 2, Aníta Eva Viðarsdóttir 2, Ingibjörg Jakobsdóttir 0.
 
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson
 
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski tomasz@karfan.is  
Umfjöllun: Jón Björn Ólafsson nonni@karfan.is