Ísfirðingar koma upp í úrvalsdeild karla með látum en þar á bæ er fyrirhugað að sýna beint á netinu frá öllum heimaleikjum KFÍ í meistaraflokkum karla og kvenna. Strákarnir í GE group hafa fært okkur þá marga leikina og ætla bara að herða róðurinn á komandi tímabili mörgum körfuknattleiksunnandanum til yndisauka.
Magnað er að fylgjast með mörgum félögum sýna beint á netinu frá sínum heimaleikjum en á síðustu leiktíð voru Fjölnir, Grindavík og KR með beinar útsendingar og hver veit nema fleiri bætist í hópinn. Flestum er eflaust minnisstætt þegar Eggert Baldvinsson ruddi brautina í þessum efnum og síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar.
Hjá GE group á Ísafirði verður búnaður endurnýjaður og eru margar nýjungar á dagskrá sem verða kynntar á næstu vikum. Jakob Einar Úlfarsson tæknimaður hjá GE vildi lítið gefa út um hverju yrði bætt við en sagði þó að stefnan yrði sett á að vera með bestu umgjörðina af þeim sem senda út frá leikjum í körfunni. Stefnan er sett á að sýna frá öllum leikjum KFÍ í meistaraflokkum karla og kvenna og einnig yngri flokkum.
Unnið upp úr frétt á www.kfi.is