Keppnistímabilið hófst í kvöld og eru án efa margir farnir að hlakka til að sjá sín lið í alvöruleikjum. Grindvíkingar tóku á móti Haukum í Lengjubikarnum í Röstinni. Leikurinn var frábær skemmtun og gæðin ótrúlega mikil svona um miðjan september. Lokatölur leiksins voru 89-86 Grindavík í vil en Haukar fengu tækifæri til að jafna í lokin.
Leikurinn var í járnum allan tímann og í lokin voru Grindvíkingar með réttu spennustig og settu vítin sín. Haukar fengu tækifæri til að komast yfir þegar um 20 sekúndur voru eftir en gegnumbrot Semaj Inge fór ekki ofaní. Haukar brutu og Grindvíkingar juku muninn í 89-86 með 5 sekúndur eftir á klukkunni.
 
Haukar tóku leikhlé og settu upp lokaskot. Haukur Óskarsson fékk boltann í erfiðri stöðu en hann náði ekki góðu skoti. Grindvíkingar fögnuðu sigri og mæta því Njarðvík á sunnudagskvöld í 8-liða úrslitum.
 
Stigahæstur hjá Grindavík var Páll Axel Vilbergsson með 30 stig og hjá Haukum var Semaj Inge með 32.

 
Ljósmynd/stebbi@karfan.is Það var vel tekið á því í kvöld en fjölmargir lögðu leið sína í Grindavík í kvöld.
 
emil@karfan.is