Þeir eru góðir! Án erlends leikmanns og með Ingvald Magna Hafsteinsson utan vallar allan síðari hálfleik sökum meiðsla tókst Fjölnismönnum samt að leggja ÍR 73-76 í fyrstu umferð Lengjubikarsins. Að sama skapi var Sveinbjörn Claessen ekki með ÍR í kvöld og munar þar um minna. Fjölnir mætir því Íslands- og bikarmeisturum Snæfells í næstu umferð. Sindri Kárason var stigahæstur Fjölnismanna með 17 stig og 6 fráköst en í liði ÍR var Kelly Biedler stigahæstur með 23 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar.
ÍR komst í 7-0 áður en Fjölnismenn rönkuðu við sér og tóku völdin og leiddu 16-20 að loknum fyrsta leikhluta. Magni Hafsteinsson kenndi sér eymsla í öðrum leikhluta og kom ekki meira við sögu í leiknum en Fjölnismenn létu það ekki á sig fá og juku muninn í 31-46 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
ÍR beit frá sér í síðari hálfleik og minnkaði muninn í átta stig fyrir fjórða og síðasta leikhluta 56-64. Í fjórða leikhluta nálguðust ÍR-ingar jafnt og þétt og endaspretturinn varð æsispennandi. Þegar 14 sekúndur voru til leiksloka leiddi Fjölnir 73-76 eftir víti frá fyrirliða sínum Ægi Þór Steinarssyni. ÍR-ingar héldu í sókn, þriggja stiga skot Nemanja Sovic geigaði, boltinn barst til Ásgeirs Hlöðverssonar sem tók lokaskotið en það geigaði líka. Ásgeir vildi meina að brotið hefði verið á sér í skotinu en dómarar leiksins þeir Kristinn Óskarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson voru á öðru máli og sigur Fjölnis í höfn.
 
IR: Kelly Biedler 23/15 fráköst/5 stoðsendingar, Nemanja Sovic 22/12 fráköst, Vilhjálmur Steinarsson 10, Hjalti Friðriksson 7/4 fráköst, Elvar Guðmundsson 3, Eiríkur Önundarson 3, Níels Dungal 3, Ásgeir Örn Hlöðversson 2/6 fráköst, Björgvin Jónsson 0, Davíð Þór Fritzson 0, Þorvaldur Hauksson 0, Þorgrímur Emilsson 0.
 
Fjölnir: Sindri Kárason 17/6 fráköst/3 varin skot, Tómas Heiðar Tómasson 16, Ægir Þór Steinarsson 15/7 fráköst/10 stoðsendingar, Jón Sverrisson 14/6 fráköst, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 7, Hjalti Vilhjálmsson 5/4 fráköst, Elvar Sigurðsson 2, Trausti Eiríksson 0, Arnþór Freyr Guðmundsson 0/5 fráköst, Friðrik Karlsson 0, Leifur Arason 0, Sigurður Þórarinsson 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson
 
Ljósmynd/ Jón Björn Ólafsson: Ægir Þór Steinarsson átti góðan dag með Fjölni en hann setti 15 stig, tók 7 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.