Í gegnum tíðina hafa bræður verið áberandi í liði Slóveníu. Lorbek bræðurnir, Dragic bræðurnir og Udrih bræðurnir. En í ár er öðruvísi fjölskylduteymi í gangi en feðgarnir Memi og Sani Becirovic eru núna í liðinu. Memi þjálfar og Sani spilar.
Memi Becirovic tók við slóvenska liðinu í lok síðasta árs af Jure Zdovc en slóvenska liðið hefur náð góðum árangri undanfarin ár. Ekki er hægt að segja að fyrsta verk þjálfarans Memi Becirovic hafi verið að velja son sinn í landsliðið en Sani Becirovic er 29 ára gamall þaulreyndur landsliðsmaður og bakvörður.
 
Þrátt fyrir það fannst Sani það skrýtið í byrjun að æfa hjá pabba sínum. ,,Þetta var óþægilegt í byrjun,” sagði hann. ,,Þannig var það í nokkra daga, ég var taugaóstyrkur og ég var að spila illa. En þegar hinir leikmennirnir sáu okkur sem leikmann og þjálfara varð allt saman miklu betra og ekki lengur skrýtið,” sagði Sani.
 
Faðir hans sagði þá feðga vera fagmenn í því sem þeir gera og fjölskyldutengslin hafa engin áhrif. ,,Á æfingum og í leikjum sé ég hann sem leikmann en ekki son. Ef ég þarf á honum að halda set ég hann inná. Ef hann stendur sgi illa tek ég hann útaf,” sagði Memi kaldur og ljóst að tilfinningarnar eru skyldar eftir heima. A.m.k. fjölskyldutilfinningarnar en slóvenska liðið er vel stutt af stuðningsmönnum sínum í Tyrklandi og því ljóst að tilfinningarnar eru ávallt í hæstu hæðum hjá slóvenska liðinu og stuðningsmönnum þeirra.
 
Ljósmynd/ Sani Becirovic og Memi Becirovic í leik.
 
emil@karfan.is