Fyrsta umferð í dönsku úrvalsdeildinni fór fram um helgina og voru Íslendingar í mörgum leikjum og fóru bæði með sigur af hólmi og töpuðu einnig. Magnús Þór Gunnarsson, Guðni Valentínusson og Sigurður Einarsson voru allir í sigurliðum en Axel Kárason tapaði.

 
Danska deildin hófst í gær þegar meistarar Svendborg sigruðu BK Amager með 51 stigi, 107-56 en fyrirfram hefur Svendborg verið spáð titlinum og Amager neðsta sætinu.

Í dag tóku svo Sigurður Einarsson og félgar í Horsens IC á móti Axel Kárasyni og félögum í Værlöse. Værlöse eru nýliðar í deildinni en Horsens IC er spáð þriðja til fjórða sæti og er undir stjórn fyrrum þjálfara Axels í Skallagrím, Ken Webb. Axel skoraði fyrstu körfu Værlöse sem tapaði 70-64 eftir jafnan og spennandi leik þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í lokin eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi. Axel var stigahæstur Værlöse með 14 stig ásamt Mads Vægter en að auki tók Axel 5 fráköst á þeim 27 mínútum sem hann spilaði. Sigurður skoraði 2 stig fyrir Horsens á 7 mínútum. Myndir frá leiknum má finna hér.

Í Åbydalnum í Árósum lék Magnús Gunnarsson sinn fyrsta leik fyrir Åbyhøj og voru lærisveinar Geoff Kotila í heimsókn. Arnar Freyr Jónsson lék ekki með en hann meiddist á æfingu fyrir skömmu og óvíst hversu mikið hann getur leikið í vetur. Åbyhøj og Næstved er báðum spáð um miðja deild og var um jafnan og spennandi leik að ræða þar sem Åby vann 73-63. Það er þó greinilegt að Magnús hefur haft „byssuleyfi“ því hann skaut 16 þriggja stiga skotum og hitti úr 5 en að auki gaf hann 5 stoðsendingar á 27 mínútum. Þess má geta að Danir hafa breytt leikvelli sínum eins og gert verður hér næsta sumar og er því þriggja stiga línan lengra frá en hún hefur verið. Hér má sjá myndband frá leiknum og m.a. nokkra "feita þrista" frá Magnúsi.

Guðni Valentínusson lék í 4 mínútur með Bakken bears sem var í heimsókn hjá SISU í Kaupmannahöfn og skoraði 3 stig þegar Bakken vann 105-72. Í fjórða leikhluta skoraði Bakken 35 stig en SISU aðeins 9. Bakken hefur verið númer eitt eða tvö í Danmörku í mörg ár en SISU er í mikilli endurskipulagningu eftir fjármálaóreiðu og er m.a. Hrannar Hólm kominn í stjórn félagsins og tekur þátt í að endurskipuleggja hlutina í þessu fornfræga félagi.

Næstu leikir fara fram í vikunni og á þriðjudag heimsækir Horsens IC lið Amager og á miðvikudag tekur Værlöse á móti SISU og í Árósum verður borgarslagur og jafnframt Íslendingaslagur þegar Bakken fær Åbyhøj í heimsókn.

runar@karfan.is

Mynd: www.hicbasket.dk