Í dag kl. 18:30 mætast Bandaríkin og Tyrkland í úrslitaviðureigninni á Heimsmeistaramótinu í körfuknattleik. Karfan.is setti sig í samband við Benedikt Guðmundsson, þjálfara Þórs í Þorlákshöfn, fyrir leikinn en Benedikt segir Bandaríkjamenn ávallt vera langlíklegasta liðið á stóru mótunum. 
,,Þetta er ekki öruggur sigur hjá Bandaríkjamönnum en þeir eru töluvert líklegri, þeir eru alltaf langlíklegastir á þessum mótum en margar þjóðir hafa samt sýnt að þær geta tekið þá á góðum degi og tala nú ekki um þetta heimavallarævintýri sem er í gangi í Tyrklandi,” sagði Benedikt en gera má ráð fyrir smekkfullu húsi í Istanbul í kvöld.
 
,,Ég er að horfa á sigurkörfuna hjá Tyrkjum gegn Serbum og þetta er alveg að ganga upp hjá þeim. Úrslitaleikurinn er samt ekkert gefins fyrir Bandaríkjamenn og lykillinn að því að vinna Kanann hefur t.d. verið 2-3 svæðisvörn eða annað svæðisvarnarafbrigði. Annars held ég að Bandaríkjamenn séu búnir að læra af þessum mótum í gegnum tíðina og farnir að setja liðið sitt betur saman. Það eru ekki lengur bara þessir hæfileikaríkustu sem skipa liðið heldur er sett saman heild. Bandaríska liðið er skipað þvílíkum leikmönnum þó margar af ofurstjörnunum vanti,” sagði Benedikt og bætti við að nú væru Bandaríkjamenn farnir að velja í landslið.
 
,,Þetta eru ekki bara 12 hæfileikaríkustu leikmennirnir heldur var púslað saman liði sem myndar sterka heild. Ég fæ ekki betur séð en að Kaninn sé að gefa sig í þetta í botn, ekkert sumarfrí í gangi,” sagði Benedikt en sér hann fyrir lokatölurnar.
 
,,Ég vona að Tyrkir vinni þetta en ég hugsa að Bandaríkjamenn vinni þetta með svona 13 stiga mun.”
 
Ljósmynd/ Benedikt Guðmundsson vonast eftir tyrkneskum sigri en á von á því að Bandaríkjamenn verði heimsmeistarar.