Þó stutt sé í mót og sumir flokkar jafnvel komnir af stað þá eru félagsskiptin að klárast og línur að skýrast í hinum ýmsu deildum. Ungir og eldri skipta um félög og vert að drepa á nokkrum aðilum af þessu tilefni en Stjörnukonur í 1. deildinni eru að fá veglega viðbót þar sem Amanda Andrews kemur frá Bandaríkjunum og þá mun Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir taka fram skónna með Garðbæingum.
Sólveig gerði garðinn fyrst frægan með Grindavík og var ung að árum farin að láta vel til sín taka í úrvalsdeild, hún hefur einnig leikið með KR en nú mun ungt lið Stjörnunnar á sínu öðru ári njóta starfskrafta Sólveigar.
 
Enn af Stjörnunni því undur og stórmerki eru að gerast þessi misserin þegar enginn annar en Jón Kr. Gíslason hefur skipt frá Keflavík yfir í Stjörnuna. Vísast stefnir kappinn ekki á endurkomu í úrvalsdeild en hefur þegar lagt sitt af mörkum sem fyrrum leikmaður og þjálfari meistaraflokks og nú er frumburður hans, Dagur Kár, kominn á leikmannalista hjá Teiti Örlygssyni þjálfara liðsins. Jón er hvað þekktastur sem fyrrum leikmaður og þjálfari Keflavíkur og síðar landsliðsþjálfari Íslands.
 
KR hefur ráðið bandarískan bakvörð að nafni Marcus Walker sem er 24 ára gamall.
Bjarni Rúnar Lárusson er mættur aftur í leik með Hamri eftir veru í Þýskalandi.
Borgnesingar eru komnir með Evrópumann, Nikola Kuga að nafni, 24 ára gamall leikmaður frá Slóveníu.
Guðmundur Auðunn Gunnarsson 20 ára gamall leikmaður frá Keflavík verður á mála hjá FSu í vetur og því annar Suðurnesjaleikmaðurinn sem gengur í raðir FSu fyrir komandi tímabil en það gerði Valur Orri Valsson, sonur Vals Ingimundarsonar sem tók við FSu í sumar af Rob Newson.