Sakera Young mun ekki leika meira með Valskonum í Iceland Express deild kvenna þessa leiktíðina þar sem samningi hennar við félagið hefur verið sagt upp. Þetta staðfesti Ari Gunnarsson þjálfari Vals í samtali við Karfan.is. Valskonur sitja nú á botninum ásamt nýliðum frá Njarðvík með tvo sigurleiki eftir átta umferðir.
Valur lá gegn Snæfell í Stykkishólmi í gærkvöldi þar sem Young lék ekki með en hún gerði 11,7 stig og tók 5 fráköst og gaf 5,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.
 
,,Við erum að skoða annan leikmann og ég á von á því að það komi einhverjar fréttir af því á næstu dögum,“ sagði Ari í samtali við Karfan.is. Ég treysti leikmönnum mínum til að fara í gegnum þessa leiki sem framundan eru án erlends leikmanns en þetta verða erfiðir leikir,“ sagði Ari en Valskonur eiga næst leik í deildinni gegn Hamri í Vodafonehöllinni.
 
,,Liðið var ekkert lakara án erlends leikmanns í gær á móti Snæfell þó svo að við höfum tapað leiknum. Valur er að ganga í gegnum erfitt tímabil þessa dagana þar sem mikið er um meiðsli og veikindi hafa herjað á liðið,“ sagði Ari og má nefna að Lovísa Guðmundsdóttir er frá vegna meiðsla og þá hefur Þórunn Bjarnadóttir einnig verið að glíma við meiðsli en hún lék með í Hólminum í gær.
 
,,Hanna Hálfdánardóttir er ekki heldur í 100% ásigkomulagi og þá er Hrund líka að berjast við meiðsli en hefur samt spilað alla leikina. Þegar svona gengur á og svína- og annarskonar flensa í gangi þá verða hlutirnir erfiðir,“ sagði Ari en kvaðst þess fullviss að Valskonur myndu rífa sig upp úr þeim öldudal sem liðið er í núna og koma sterkar til leiks í næstu leikjum.