Heil umferð fór fram í Iceland Express deild kvenna í kvöld þar sem KR vann sinn sjötta leik í röð í deildinni. KR heimsótti Hamar í Hveragerði og hafði betur á útivelli 51-62. Margrét Kara Sturludóttir var atkvæðamest í liði KR með 23 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá Hamri var Kristrún Sigurjónsdóttir með 19 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar.
Keflavík fór létt með Snæfell 83-56 þar sem Kristi Smith lék sinn fyrsta deildarleik með Keflvíkingum og gerði 21 stig ásamt því að gefa 4 stoðsendingar. Hjá Snæfell var Kirsten Green stigahæst með 18 stig og 7 fráköst.
 
Nýliðar Njarðvíkur lögðu Íslandsmeistara Hauka í Ljónagryfjunni 95-80 þar sem Shantrell Moss fór hamförum með 45 stig, 17 fráköst og 2 stoðsendingar. Framlengja varð leikinn þar sem Njarðvíkingar reyndust mun sterkari. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 76-76 en Njarðvíkingar unnu framlenginguna 19-4. Í liði Hauka var Heather Ezell fyrirferðamikil með 36 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar.
 
Þá mættust Valur og Grindavík í Vodafonehöllinni þar sem gestirnir fóru með 12 stiga sigur af hólmi, 48-60.
 
Úrslit kvöldsins:
Hamar 51-62 KR
Keflavík 83-56 Snæfell
Njarðvík 95-80 Haukar
Valur 48-60 Grindavík