Þrír leikir fóru fram í níundu umferð Iceland Express deildar karla í kvöld þar sem Grindavík lagði Snæfell 95-94 í framlengdum spennuleik. Þá héldu KR konur sigurgöngu sinni áfram er þær lögðu Íslandsmeistara Hauka að Ásvöllum.
Páll Axel Vilbergsson var stigahæstur í sigri Grindavíkur á Hólmurum með 21 stig en atkvæðamestur í liði gestanna var Sigurður Þorvaldsson með 24 stig og 12 fráköst. Björn Steinar Brynjólfsson var hetja Grindavíkur í kvöld þegar hann setti niður þrist þegar ein sekúnda var til leiksloka. Snæfell fékk möguleika á því að stela sigrinum en skot Hlyns Bæringssonar geigaði og Grindvíkingar fögnuðu sigri.
 
ÍR vann öruggan 84-73 sigur á Fjölnismönnum í Kennaraháskólanum þar sem Nemanja Sovic gerði 26 stig fyrir ÍR-inga en stigahæstur í liði Fjölnis var Christopher Smith með 27 stig og 15 fráköst.
 
Tindastóll vann síðan stórsigur á botnliði FSu 103-52. Svavar Atli Birgisson gerði 23 stig fyrir Tindastól en Alex Zimnickas var með 18 stig hjá FSu.
 
Margrét Kara Sturludóttir var sjóðheit gegn Haukum að Ásvöllum þegar KR vann sinn níunda deildarsigur en Kara gerði 34 stig í leiknum og tók 7 fráköst. Stigahæst í liði Hauka var Heather Ezell með 23 stig og 7 fráköst en lokatölur leiksins voru 62-81 KR í vil.