Toppliðin í Vestur- og Austurdeild NBA, LA Lakers og Boston Celtics, töpuðu bæði leikjum sínum í nótt.
 
Denver Nuggets lögðu meistara Lakers að velli í nótt með öruggum sigri á heimavelli sínum. Lakers höfðu unnið fimm leiki í röð en áttu ekki roð í Carmelo Anthony og félaga sem lögðu grunninn að sigrinum í þriðja leikhluta þar sem þeir nær gerðu út um leikinn og náðu rúmlega 20 stiga forskoti.
Þá töpuðu Celtics fyrir Atlanta Hawks í mun jafnari leik sem réðist ekki fyrr en á lokamínútunum. Joe Johnson og Jamal Crawford fóru fyrir Hawks sem hafa farið vel af stað þar sem þeir hafa unnið sjö leiki og tapað aðeins tveimur. Hjá Boston voru hins vegar of margir sem ekki voru að skila sínu, en Paul Pierce var þó með 24 stig.
 
Loks má geta þess að enn syrti í álinn fyrir botnliðin í NBA, en grannaliðin NY Knicks og NJ Nets töpuðu enn. Nets fyrir Orlando, og hafa þá tapað öllum 9 leikjum sínum, og Knicks máttu sætta sig við niðurlægjandi tap á eigin heimavelli gegn öðru glötuðu liði, Golden State Warriors.
 
Knicks hafa þá tapað 9 af fyrstu 10 leikjum sínum í vetur, sem er þeirra versta byrjun frá upphafi.
 
Hér eru úrslit næturinnar:
 
Utah 112
Philadelphia 90
 
New Jersey 72
Orlando 88
 
Golden State 121
New York 107
 
Atlanta 97
Boston 86
 
Portland 86
New Orleans 78
 
Dallas 89
Minnesota 77
 
Houston 100
Sacramento 109
 
Toronto 104
LA Clippers 89
 
LA Lakers 79
Denver 105