Ármenningar skelltu Þór Akureyri 91-55 í Laugardalshöll í löngum og tilþrifalitlum leik. Ef ekki hefði verið fyrir skotsýningu Halldórs Kristmannssonar hefði leikurinn fengið fullkomna falleinkunn. Halldór sallaði niður 24 stigum fyrir Ármann og sýndi gamalkunna takta enda annáluð skotmaskína. Stigahæstir í liði Þórs voru þeir Elvar Sigurjónsson og Sigmundur Óli Eiríksson, báðir með 10 stig.
Heimamenn leiddu 14-10 eftir fyrsta leikhluta og 36-24 í hálfleik og ef fólki fannst stigaskorið lágt í fyrri hálfleik þá var tempóið á leiknum enn lægra.
 
Í síðari hálfleik reyndu Þórsarar fyrir sér í svæðisvörn um leið og Halldór Kristmannsson fór á bekkinn hjá Ármenningum og héldu Norðanmenn sig við það varnarafbrigið til leiksloka. Sama hvað Þórsarar reyndu þá voru Ármenningar einfaldlega of sterkir og leiddu 65-36 eftir þriðja leikhluta.
 
Í fjórða leikhluta var þetta einvörðungu spurning um hversu stór sigur Ármenninga yrði og að lokum lauk langlokunni með 91-55 sigri Ármanns. Eins og fyrr greinir var Halldór Kristmannsson stigahæstur hjá Ármanni með 24 stig og Daði Berg Grétarsson kom honum næstur með 16 stig.
 
 
Ljósmynd/Halldór Kristmannsson smellir einni eldflauginni af stað.