Keflvíkingar eru á beinu brautinni og í kvöld lönduðu þeir sínum þriðja deildarsigri í röð er þeir mættu FSu á Selfossi í Iceland Express deild karla. Lokatölur í Iðu voru 63-75 Keflavík í vil en heimamenn máttu þola sinn fimmta ósigur í röð og sitja því áfram á botninum ásamt Fjölnismönnum sem steinlágu í Hólminum í kvöld.
Reynsluboltinn Gunnar Einarsson var þokkalega sáttur við sigurinn og kvað hann af meiri skyldurækni en annað: ,,Þetta var bara spurning um að fara þangað og klára þetta og fara svo heim að sofa,“ sagði Gunnar í samtali við Karfan.is en hann gerði 14 stig í leiknum, tók 2 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.
 
,,Við gerðum bara það sem við þurftum til þess að klára dæmið og í svona leikjum fer maður oft niður á sama plan og andstæðingurinn og það gerðum við í kvöld. Við sýndum kannski okkar rétta leikstíl í öðrum leikhluta annars var vörnin slök og við náðum ekki að gera réttu hlutina,“ sagði Gunnar sem eins og flestir boltaspekingar á von á því að Selfyssingar verði í bullandi fallbaráttu alla leiktíðina.
 
,,FSu er með slakari liðum deildarinnar, ég ætla alls ekki að gera lítið úr þeim en þeir verða í neðri hlutanum, það er alveg klárt mál,“ sagði Gunnar og til þess að sú spá bresti mega hlutirnir aldeilis fara að snúast við á Selfossi.
 
Rashon Clark var stigahæstur hjá Keflavík í Iðu í kvöld með 24 stig og 12 fráköst en næstur honum var Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 15 stig og 10 fráköst. Corey Lewis gerði 20 stig fyrir FSu, tók 10 fráköst og stal 5 boltum. Næstur honum var Cristopher Caird með 16 stig og 9 fráköst.
 
Næsti leikur Keflvíkinga er í Subwaybikarnum næsta sunnudag er þeir heimsækja bikarmeistara Stjörnunnar í Ásgarð. ,,Við eigum harma að hefna á móti Stjörnunni síðan við töpuðum fyrir þeim í deildinni. Ég hlakka bara til að mæta þeim og við komum vonandi til með að sýna okkar rétta andlit sem við gerðum ekki síðast á móti þeim,“ sagði Gunnar en síðasti deildarsigur Stjörnunnar gegn Keflavík var þeirra fyrsti í sögu Garðabæjar.
 
 
Texti: nonni@karfan.is  
Mynd/Úr safni: Hilmar Bragi Bárðarson