Eiríkur Önundarson kom öllum að óvörum og spilaði með ÍR liðinu í gær þegar þeir mættu Haukum í Subwaybikarnum. ÍR fór með öruggan sigur af hólmi, 70-94, og sýndi Eiríkur gamalkunna takta á þeim 13 mínútum sem hann spilaði. Hann skorði 5 stig og gaf 2 stoðsendingar og ljóst að hann verður ÍR-ingum mikilvægur um leiða og hann kemst í almennilegt form.
Karfan.is tók Eirík tali eftir leik sem sagðist ekki hafa ætlað að spila þennan leik en eftir smá pressu slóg hann til.
 
„Þetta var virkilega gaman. Ég ætlaði nú ekki að spila þennan leik en Jón Arnar þjálfari þrýsti aðeins á mig að prófa og þetta var helvíti fínt og mjög gaman enda kominn fiðringur í kallinn,” sagði Eríkur.
 
„Læknarnir sögðu að ég yrði 100% um jólin og ég er náttúrlega ekkert 100% í dag og töluvert frá því en einhverstaðar verður maður að byrja og maður eyðileggur þetta ekkert meira,” sagði Eiríkur og tók jafnframt fram að hans leikur hafi verið frekar daufur framan af.
„Þetta var frekar dauft framan af en svo kemur gamli jálkurinn með smá læti af bekknum og lætur aðeins finna fyrir sér.”
 
ÍR liðið fékk fyrir mótið inn nokkra leikmenn sem hafa töluverða reynslu og má þar nefna menn á borð við Nemanja Sovic, Gunnlaug Elsusson, Kristinn Jónasson, Ásgeir Hlöðversson og Björgvin Jónsson. Eiríkur hefur sjálfur mikla reynslu enda búinn að vera lengi að og tvívegis hefur hann lyft Bikarnum á loft.
 
„Við erum svolítið svona bikarlið. Við náum einhvernveginn að pumpa okkur upp fyrir svona einstaka leiki og jú jú við erum með þéttan hóp núna og þetta er allt að slípast betur og betur saman og við ætlum okkur langt í báðum mótum,” sagði Eiríkur að lokum.
 
emil@karfan.is
 
Mynd: stebbi@karfan.is