Helena Sverrisdóttir var ekki fjarri því að landa þrennu þegar bandaríska háskólaliðið hennar TCU rótburstaði Houston Baptist 109-30 í gær. Helena gerði 13 stig í leiknum, gaf 10 stoðsendingar og tók 9 fráköst. Þá stal Helena einnig 6 boltum á þeim 25 mínútum sem hún lék.
Helena var að vanda í byrjunarliðinu en þetta er í fyrsta sinn síðan leiktíðina 2006-2007 sem TCU gerir yfir 100 stig í einum leik. Næsti leikur TCU er þann 18. nóvember n.k. gegn Fresno State og fer leikurinn fram á heimavelli TCU í Fort Worth í Texas.
 
Þá gerði María Ben Erlingsdóttir 11 stig þegar UTPA steinlá gegn Oral Roberts 98-65 fyrir fáeinum dögum. María var stigahæst hjá UTPA ásamt Esther Rose Jean sem einnig var með 11 stig. María tók líka 4 fráköst á þeim 34 mínútum sem hún lék í leiknum. Með ósigrinum hefur UTPA tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á tímabilinu.