ÍR fékk skell í Toyota-Höllinni í Keflavík í kvöld 107-81. Leikurinn hófst með látum og var mikið skorað enda stóðu leikar 31-23 fyrir Keflavík að loknum fyrsta leikhluta.
Leiðir skildu strax í öðrum leikhluta þar sem heimamenn settu í fluggír og leiddu 67-48 í hálfleik. Lokatölur urðu svo eins og fyrr greinir 107-81 Keflavík í vil.
 
Rashon Clark lék ekki með Keflavík í kvöld en hann meiddist á fingri vinstri handar í bikarleiknum gegn Stjörnunni á dögunum. Hörður Axel Vilhjálmsson leiddi Keflvíkinga áfram í stigaskorinu í kvöld með 22 stig og 7 stoðsendingar. Næstur Herði í liði Keflavíkur var Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 16 stig og 8 fráköst.
 
Nemanja Sovic var stigahæstur hjá ÍR með 24 stig og 8 fráköst og Gunnlaugur Elsuson gerði 9 stig.
 
Hilmar Bragi Bárðarson ljósmyndari hjá Víkurfréttum smellti af myndum í Keflavík í kvöld sem finna má hér.