Sigrún Ámundadóttir átti góðan leik á móti Grindavík í gærkvöldi og taldi að 2-3 svæðisvörn Hamars í fjórða leikhluta hafi verið lykillinn að því að sigra Grindavík í annars jöfnum leik.
„Kristrún (Sigurjónsdóttir) var meidd og spilaði ekki með og því urðu aðrir leikmenn að stíga upp. Gugga (Guðbjörg Sverrisdóttir) gerði það í leiknum en það tók okkur smá tíma að finna okkur í þessum leik. Við vorum í miklum vandræðum með að stíga út, fráköstin sem Grindavík var að taka voru náttúrulega ótrúlega mörg og allt of mörg sóknarfráköst og við urðum að finna einhverja leið til að stöðva þessi fráköst. Við skiptum yfir í 2-3 svæði í fjórða leikhluta og þá þéttist vörnin og við fórum að stíga betur út og þá náðum við að komast yfir og klára leikinn. Núna hefst síðan bara undirbúningur fyrir næsta leik gegn KR og þá verða vonandi allir leikmenn heilir og tilbúnir í slaginn.“
_______________________________________________________________________________
 
Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkurstelpna var sáttur við spilamennsku síns liðs en hefði viljað sigur úr annars jöfnum leik og hefur litlar áhyggjur af framhaldinu.
 
„Við spiluðum svo sem allt í lagi í 30 mínútur en hættum alveg í 4ja leikhluta og stelpurnar vorum hræddar á móti svæðisvörninni, við vorum hræddar að fara á körfuna og í jöfnum leik eins og þessum er dýrt að klikka 4-5 lay-hoppum undir körfunni, vítum og tapa boltanum heimskulega.
 
Nú vinnið þið frákastabaráttuna sem hefur yfirleitt verið vandamál hjá Grindavíkurliðinu en tapið leiknum samt.
 
„Það sem drap okkur var einbeitingaleysi, við töpuðum þessu á því að klikka á auðveldum skotum eftir að hafa spilað vel gegn svæðisvörninni. Annars hef ég litlar áhyggjur af þessum leik, við höldum bara áfram okkar striki og mótið er bara rétt að byrja.“
 
Texti: Bryndís Gunnlaugsdóttir
Mynd: Þorsteinn G. Kristjánsson