Stjarnan vann Grindavík B í fyrstu deild kvenna í Ásgarði síðastliðið föstudagskvöld. Lokatölur leiksins urðu 53-47 en áhorfendur fengu litla skemmtun út úr honum. Þjálfari Stjörnustúlkna sagði leikinn einn þann versta sem liðið hefði spilað undir hans stjórn.
 
Stjarnan hafði frumkvæðið framan af og leiddi 18-11 eftir fyrsta fjórðung. Grindavíkurstelpur brugðust þá við og lokuðu eiginlega á heimastúlkur. Fyrir leikhlé höfðu gestirnir minnkað muninn í 27-24 og eftir þriðja fjórðung voru þær komnar yfir, 53-47. Grindavíkurliðið spilaði þétta vörn sem Stjörnuliðið fann ekki glufur á. Sterkir leikmenn þeirra gulu vörnuðu Garðabæjarstelpum öll gegnumbrot og skot þeirra utan af velli voru af skornum skammti. Þær reyndu að bregðast við með að taka framar á móti gestum sínum en sú vörn virtist litlu ætla að skila. Aðgerðir þeirra báru loks árangur í fjórða leikhluta en þar kom loks í ljós sá getumunur sem flestir hefðu reiknað með að væri á liðunum fyrir leik og þær unnu 53-47.
 
Bryndís Gunnlaugsdóttir var stigahæst í liði Stjörnunnar með 13 stig en Bára Sigurjónsdóttir skoraði tólf stig. Sigríður Anna Ólafsdóttir skoraði flest stig Grindavíkurstúlkna, 12 og Lilja Sigmarsdóttir skoraði níu.
 
Bára var eini leikmaðurinn sem Barry Timmermans, þjálfari Stjörnunnar, var tilbúinn að hrósa eftir leikinn. Hann sagði leikinn einn þann versta sem liðið hefði leikið undir hans stjórn þau tvö ár sem hann hefði stýrt því. „Við byrjuðum leikinn ágætlega og náðum góðri forystu. Í öðrum fjórðungi gerði ég tilraunir með liðið. Grindavíkurliðið er líkamlega sterkt en við börðumst ekkert við þær. Í þriðja fjórðungi fundu þær lyktina af sigri sem gerði þær enn illvígari.
 
Við rönkuðum við okkur í fjórða leikhluta og unnum leikinn. Það sýnir ákveðinn styrk að spila illa en vinna samt. Næsti leikur okkar er mjög mikilvægur og við megum ekki spila svona í honum.“
 
Fjölnir og Stjarnan og mætast í Ásgarði á föstudagskvöldið klukkan 20:00. Bæði liðin hafa unnið alla sína leiki til þessa.
 
 
GG